Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) gagnrýnir áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskólaráðherra um að bjóða sjálfstætt starfandi háskólum að hljóta óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

„Innleiða ætti stefnuna „fé fylgir nemendum“ að alvöru, óháð því hvort nemendur borgi skólagjöld eða ekki. Ef skerðingin yrði afnumin gæfi það svigrúm til að lækka skólagjöld í HR töluvert. Forsendur í núverandi tilboði frá ráðuneytinu gefa í ljós að HR gæti þá tæplega helmingað skólagjöld en haldið sömu sérstöðu sem nemendur hafa valið,“ segir í ályktun SFHR.

Tekjur HR myndu lækka um meira en 10%

Framlög til sjálfstætt starfandi háskóla, þar á meðal HR, hafa verið 60-80% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert. Í tilkynningu ráðuneytisins er bent á að skert framlög hafi óhjákvæmilega leitt til þess að umræddir háskólar hafi því innheimt skólagjöld sem geta t.d. fyrir þriggja ára grunnnám hvers nemanda numið um 1,5-2 milljónum króna.

SFHR fagnar umræðunni um að fé skuli fylgja nemendum en telur að tilboð ráðherra um óskert framlög gegn afnámi skólagjalda myndu í tilfelli HR hafa í för með sér að rekstrartekjur háskólans lækki um tæplega 1,1 milljarð króna. Til samanburðar voru rekstrartekjur HR um 8,8 milljarðar árið 2022 og myndi slík ráðstöfun því fela í sér að tekjur skólans lækki um meira en 10%.

Stjórn Háskólans í Reykjavík er enn að leggja mat á hvort taka eigi tilboði ráðherra að fá óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

„Á opnum samráðsfundi nemenda HR vegna tilboðsins kom sterkt fram að nemendur í HR leggja mikið upp úr góðri aðstöðu, persónulegri kennslu, nútímalegum kennslubúnaði og framúrskarandi þjónustu við nemendur,“ segir í ályktun SFHR. „Við í stúdentaráði teljum ómögulegt að halda þessari sérstöðu sem nemendur í HR kjósa með svona fjárskerðingum. Sérstaða HR er að miklu leyti möguleg vegna fullnægjandi fjármögnunar.“

Háskólaráðuneytið sendi frá sér aðra tilkynningu um áformin í gær með frekari rökstuðningi á ákvörðuninni. Þar svarar ráðuneytið m.a. af hverju skólarnir fá ekki að rukka áfram skólagjöld þó þeir þiggi 100% framlag frá ríkinu.

„Það væri eins og ef ríkið greiddi aðgerðir hjá einkareknu heilbrigðisfyrirtæki en læknarnir gætu svo bætt ofan á þá greiðslu frá ríkinu og rukkað sjúklingana um meira.“

SFHR spyr á móti hvernig það eigi að vera mögulegt að framkvæma slíka aðgerð þegar ríkisframlagið dugir ekki til þess að hún gangi raunverulega vel.

„Það hefur lengi verið vitað að háskólana á Íslandi og sérstaklega þá opinberu skorti ríkisfjármagn. Eins og staðan er í dag dugir ekki „100% ríkisframlagið“ til að kenna nemendum með þeim hætti sem HR hefur verið að gera. Til þess að raunverulega auka aðgengi að vali mismunandi háskóla óháð efnahag, er réttast að afnema skerðingarnar og lækka því þröskuldinn verulega fyrir nemendur með lægri skólagjöldum,“ segir í ályktun stúdentafélagsins.

3.500 nemendur greiða skólagjöld ekki af ástæðulausu

SFHR telur að óskert fjárframlag frá ríkinu, óháð því hvort háskólarnir innheimti skólagjöld, yrði í samræmi við áhersluþætti háskólaráðuneytisins í ráðherratíð Áslaugar Örnu, bæði hvað varðar að útskrifa fleiri unga karlmenn og nemendur i raun- og tæknigreinum.

„Það er ástæða fyrir því að rúmlega 3.500 nemendur velji að borga skólagjöldin í stað þess að fara á samskonar námsbraut hinu megin við Vatnsmýrina. Þetta val þarf að standa til boða án þess að fjármagn sem fylgir þessum nemendum sé skert. Eins og ríkisfjármagnið er í dag er það ómögulegt án skólagjalda.“