Um þessar mundir eru tvö ár síðan Betri vinnutími, sem í daglegu tali er oftast kölluð stytting vinnuvikunnar, var tekin í gagnið hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga í dagvinnu. Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 var kveðið á um heimild til að stytta vinnuvikuna niður í 36 klukkustundir. Um er að ræða eina stærstu kjarasamningsbundnu breytingu í kjarasamningum opinberra starfsmanna í áratugi og var meginmarkmið breytinganna að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu, auka skilvirkni og auka samræmingu vinnu og einkalífs. Forsenda breytinganna var að starfsemi raskaðist ekki og að þjónusta væri af sömu eða betri gæðum en áður.

Undir lok síðasta árs gaf endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið KPMG út skýrslu um Betri vinnutíma í dagvinnu fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem byggði á samtölum og gögnum frá 28 stofnunum og tveimur ráðuneytum. Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að sumum ofangreindum meginmarkmiðum hafi ekki verið náð.

Þar kemur meðal annars fram að yfirgnæfandi meirihluti stofnana, eða 77%, hafi nýtt sér heimild til að stytta vinnuvikuna úr 40 vinnustundum í 36 að fullu í fyrsta skrefi þrátt fyrir fyrirmæli um að fara hægt í sakirnar. Meirihluti stofnana hafi farið strax í hámarksstyttingu án þess að fylgja markmiðum um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu. Skort hafi árangurs- og framleiðnimælingar í ríkiskerfinu. Áhrif vinnutímabreytinga á skilvirkni í rekstri stofnana sé þar af leiðandi heilt yfir óljós. Þá séu vísbendingar um að gæði þjónustu hafi minnkað.

Áhrifa stéttarfélaga gæti í þessu samhengi þar sem skilaboðin hafi oft verið á þann veg að hámarks stytting væri kjarasamningsbundinn réttur hvers og eins. Með því móti hafi starfsfólki og stjórnendum verið stillt upp í sitthvort liðið og markmið um gagnkvæman ávinning týnst í umræðu um neysluhlé.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.