Forsetaframboð og stólaleikur ráðherra

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sigldi ekki lygnan sjó á árinu, ekki frekar en fyrri ár, en talsverðar hrókeringar urðu á vormánuðum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem gegndi óumdeilanlega hlutverki sáttamiðlara á stjórnarheimilinu, steig til hliðar sem forsætisráðherra og ákvað að gefa kost á sér til forseta Íslands eftir að Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Í kjölfarið tók Bjarni Benediktsson, sem var þá utanríkisráðherra, við sem forsætisráðherra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem hafði síðast fært sig um set haustið 2023, færði sig aftur yfir í utanríkisráðuneytið og Sigurður Ingi Jóhannsson kom í hennar stað í fjármálaráðuneytið. Svandís Svavarsdóttir færði sig yfir í innviðaráðuneytið og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom ný inn í stað Svandísar í matvælaráðuneytið. Sjálf laut Katrín Jakobsdóttir í lægra haldi fyrir Höllu Tómasdóttur, sem tók við embætti forseta Íslands í byrjun ágúst.

Afhroð Pírata og Vinstri grænna

Eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur og tíð ágreiningsmál náði ríkisstjórnarsamstarfið suðupunkti í haust. Ríkisstjórnin sprakk loks í október en Bjarni Benediktsson, sem hafði aðeins verið forsætisráðherra í örfáa mánuði, baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti.

Þingkosningar fóru fram þann 30. nóvember og guldu tveir stjórnarflokkar afhroð. Vinstri græn fengu innan við 3% atkvæða og þurrkaðist flokkurinn af þingi. Framsóknarflokkurinn tapaði 8 þingsætum og endaði með 5 sæti en allir ráðherrar flokksins duttu út, fyrir utan formanninn sem rétt slefaði inn sem jöfnunarþingmaður. Sjálfstæðisflokkurinn kom skást út, tapaði tveimur sætum og endaði með 14. Samfylkingin, sem var þegar mest lét með í kringum 30% fylgi í könnunum, endaði með 21% atkvæða og tryggði sér 15 þingsæti.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fékk stjórnarmyndunarumboð og hófust viðræður við Viðreisn og Flokks fólksins í byrjun desember. Þegar þetta er skrifað standa viðræður enn yfir og óljóst hvort svokölluð Valkyrjustjórn taki við.

Stýrivaxtalækkunarferlið hafið

Eins og víðar í heiminum hélt verðbóla áfram að hjaðna hér á landi á árinu. Ársverðbólga mældist 4,8% í nóvember en var 6,7% í byrjun árs.

Vaxtalækkunarferlið hófst sömuleiðis á árinu en eftir rúmt ár af 9,25% stýrivöxtum ákvað Seðlabankinn að lækka vexti um 25 punkta á fundi sínum í október. Var það fyrsta lækkun stýrivaxta í tæp fjögur ár hér á landi og kom hún nokkuð á óvart að mati greiningaraðila. Önnur stýrivaxtalækkun kom í nóvember, þá um 50 punkta.

Viðskiptabankarnir lækkuðu óverðtryggða vexti en hækkuðu verðtryggða vexti vegna of hás raunvaxtastigs. Greiningaraðilar spá því að verðbólga muni halda áfram að hjaðna á nýju ári og vextir verði lækkaðir samhliða en næsta stýrivaxtaákvörðun er í byrjun febrúar 2025.

Stöðugleiki á almenna vinnumarkaðnum

Langtímakjarasamningar, svokallaðir Stöðugleikasamningar, voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði í vor. Samið var um hóflegar launahækkanir með það að markmiði að skapa skilyrði fyrir minni verðbólgu, lægri vexti og stöðugleika.

Samningurinn kemur til endurskoðunar í september 2025 en forsendur þess að samningurinn haldi eru þær að ársverðbólga sé undir 4,95% í ágúst sama ár. Þá þurfi stjórnvöld að hafa staðið við gefin fyrirheit en heildarumfang aðgerða af þeirra hálfu vegna kjarasamninganna nema allt að 80 milljörðum króna.

Kjaraviðræður á opinberum vinnumarkaði hófust í kjölfarið en ákveðnar stéttir töldu sig ekki geta unað við efni samningsins. Kennarar hófu verkföll í nokkrum skólum í haust og læknar stefndu sömuleiðis á verkfall  en samningur milli þeirra og ríkisins var undirritaður í nóvember. Á svipuðum tíma ákváðu kennarar að fresta sínum aðgerðum en verkföll hefjast aftur í byrjun febrúar ef kjarasamningur hefur ekki náðst fyrir þann tíma.

Svört staða í orkumálum

Orkumálin voru í brennidepli á árinu þar sem sviðsmynd sem varað hefur verið við frá árinu 2019 hefur verið að rætast. Auknar líkur eru á orkuskerðingum fram til ársins 2028 og möguleiki á að skerða þurfi forgangsorku í fyrsta sinn.

Takmarkanir í flutningskerfinu eru áfram flöskuháls og raforkuverð hefur tekið að hækka. Raforkukauphöllin Vonarskarð tók til starfa en þar hefur framboð verið af skornum skammti. Gripið var til skerðinga enn eitt árið  til fiskimjölsverksmiðja og stórnotenda undir lok 2023 sem voru í gildi fram á árið 2024. Í vetur var tilkynnt um sambærilegar skerðingar til stórnotenda á suðvestur-, norður- og austurhluta landsins en fallið var frá skerðingum á norður- og austurhluta landsins þar sem staða miðlunarlóna hafði skánað.

Engar nýjar virkjanir koma í gagnið fyrr en í fyrsta lagi árið 2026 á sama tíma og orkunotkun mun einungis aukast. Hvammsvirkjun, sem hefur verið í ferli í á þriðja áratug, er á áætlun og öll leyfi eru komin fyrir vindorkuver við Búrfellslund.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.