Heildverslunin Innnes hefur fest kaup á innflutningsfyrirtækinu Arka Heilsuvörur. Í tilkynningu frá Innnes segir að samrunaaðilar muni ekki tjá sig frekar um kaupin fyrr en að lokinni skoðun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Arka, sem var stofnað árið 2002, sérhæfir sig innflutning og dreifingu á heilsu- og lífstílsvörum. Meðal þekktra vörumerkja hjá Arka má nefna vítamínsdrykkina Vit-Hit, vítamín- og próteinstykkin Fulfil, berjadrykkirnir The Berry Company, súkkulaðiplöturnar Tony‘s, barnavörurnar Kiddylicious, orkuskvísurnar Be Plus og morgunkornið Eat Natural.
„Kaup Innnes á Arka falla vel að markmiðum og gildum félagsins en það er að bjóða uppá breitt vöruúval og heildstæðar lausnir fyrir viðskiptavini sína. Það er því mikill fengur fyrir Innnes að fá þessi öflugu vörumerki í vöruúrval sitt og geta boðið viðskiptavinum sínum uppá fjölbreyttari lífstíls- og heilsuvörulínu.“
Samkvæmt ársreikningi Arka fyrir árið 2020 fóru Þóra Björg Dagfinnsdóttir og Geir Magnús Zoéga, með sitthvorn 26,25% hlut í félaginu. Þá áttu Albert Þór Sverrisson og Ólöf Dagfinnsdóttir hvort um sig 21,25% hlut. Í tilkynningunni er Arka lýst sem öflugu fjölskyldufyrirtæki.
Velta Arka nam 390 milljónum króna árið 2020, samanborið við 434 milljónir árið 2019. Eignir félagsins voru bókfærðar á 111 milljónir í árslok 2020 og eigið fé var 59 milljónir.
Magna lögmenn komu að ráðgjöf við kaupin og PwC mun annast áreiðanleikakönnun fyrir hönd kaupenda.