Virði bandaríska fjártæknifyrirtækisins Stripe, sem Novator fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar er hluthafi í, hefur dregist saman um 28% samkvæmt innra mati félagsins samkvæmt heimildum Wall Street Journal.
Stripe tjáði starfsmönnum í tölvupósti að innra hlutabréfaverð fyrirtækisins væri um 29 dalir samanborið við 40 dali í síðasta svokallaða 409A verðmati, sem er m.a. nýtt í kaupréttarsamningum. Ekki var nánar gerð grein fyrir ástæðu lækkunarinnar en hana má líklega rekja til lækkunar á hlutabréfaverði skráðra tæknifyrirtækja í ár.
Novator gerðist hluthafi í Stripe með þátttöku í hlutafjáraukningu félagsins undir lok árs 2019 en þá var fjártæknifyrirtækið metið á 35 milljarða dala. Í fjármögnunarlotu Stripe í fyrra var fyrirtækið metið á 95 milljarða dala.
Miðað við verðmatið er innra virðið Stripe um 74 milljarðar dala. Taka skal fram að þessi mælikvarði er ólíkur verðmati fjárfesta sem byggir yfirleitt á verðlagningu í síðustu fjármögnunarlotu auk rekstrarframmistöðu og ytri þátta.