Hlutabréfamarkaðir vestanhafs og í Evrópu hafa staðið umtalsvert betur en markaðurinn á Íslandi á undanförnum misserum.

Arðgreiðsluleiðrétt úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins, OMX Iceland 15, hefur þó tekið við sér að undanförnu. Vísitalan hefur hækkað um 17,7% frá því á sama tíma í fyrra og hækkað um 5,3% frá áramótum.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, telur ágætis horfur á markaði.

„Lækkandi vextir ættu auðvitað að örva hagkerfið á ný. Það eru ágætis horfur og maður skynjar hvað það lyftist brúnin á öllum nú þegar vaxtalækkunarferlið er hafið.“

Hann bætir við að Birta lífeyrissjóður sé nú, líkt og aðrir sjóðir, í miðju ferli við að endurskoða fjárfestingarstefnu sína fyrir árið 2025. Flestir lífeyrissjóðir gefa út fjárfestingarstefnu sína 1. desember næstkomandi.

Ólafur gerir ráð fyrir að skuldabréfamarkaðurinn muni áfram veita hlutabréfamarkaðnum mikla samkeppni.

„Niðurhallandi vaxtaferill gefur af sér tækifæri til að vinna með líftíma svo dæmi sé tekið og ég geri nú ráð fyrir að spákaupmennska aukist á þeim markaði. Það er mikil samkeppni um fjármagn og við gætum farið að sjá innstreymi í skuldabréfasjóði á næstu misserum.“

Vill aukna þátttöku almennings

Ólafur telur mikilvægt fyrir innlendan hlutabréfamarkað að fá inn fleiri tegundir fjárfesta, þar á meðal almenning.

„Með innkomu nýrra félaga á íslenskan hlutabréfamarkað hefur hlutfall stofnanafjármagns í Kauphöllinni ekki aukist, það hefur að einhverju leyti dregist saman. Engu að síður hefði ég viljað sjá almenning koma af meiri krafti inn á markaðinn.

Það gekk glimrandi vel að selja bréf í Icelandair og Íslandsbanka til almennings á sínum tíma, og það hefði verið frábært ef sú þróun hefði haldið áfram til lengri tíma. Það munar um að fá slíka fjárfesta inn, jafnvel þó viðskiptin séu lítil, það stuðlar að bættri verðmyndun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.