Það er gríðarlega mikil innviðaþörf á Íslandi og ég spyr af hverju við ættum að fjármagna þá þörf með erlendum skuldum þegar lífeyrissjóðirnir eru með pening sem þarfnast vinnu. Þetta eru langtímafjárfestingar sem henta lífeyrissjóðum ágætlega sem eru að vaxa mikið,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Ólafur telur að það séu fjölmörg tækifæri til að létta á þeim gjaldeyrisþrýstingi sem myndast hefur hjá mörgum lífeyrissjóðum, vegna lagalegs hámarks á hlutfalli erlendra eigna, með skráningu innviða á markað.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þakið hækkar í 65% í skrefum til 2036

Hlutfall gjaldeyriseigna lífeyrissjóða af heildareignum nam 39,1% í lok maí á þessu ári, samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum, en hlutfallið var 38,5% í árslok 2023. Lagalegt hámark á gjaldeyriseignir lífeyrissjóða er 51,5%, en það hækkaði um 1,5 prósent í janúar síðastliðnum í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðirnir eru því áfram vel undir lögbundnu hámarki, en þó eru nokkrir sjóðir að nálgast hámarkið. Gjaldeyriseignir LSR námu til að mynda 43% af heildareignum og gjaldeyriseignir LIVE námu 44,5% af heildareignum.

Lögin sem um ræðir voru samþykkt í mars í fyrra, en megininntak lagabreytinganna var hækkun hámarksins í skrefum upp í 65% fram til ársins 2036. Þá er lífeyrissjóðum heimilt að rjúfa hámarkið vegna verð- og gengishreyfinga svo lengi sem þeir auki ekki gjaldeyrisáhættu sína á meðan þeir eru yfir hámarkinu.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.