Írska flugfélagið Aer Lingus flaug sitt fyrsta áætlunarflug frá Dublin til Nashville um helgina. Flugtíminn er um átta klukkustundir og 20 mínútur og er áætlunarflugið það lengsta sem Aer Lingus flýgur á tvíhreyfla Airbus-vélum sínum.

Á vef Simple Flying segir að flugfélagið muni fljúga fjórum sinnum í viku til Nashville, eða á laugardögum, sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum.

Ákvörðun Aer Lingus um að hefja áætlunarflug frá Dublin til Nashville byggist á bæði efnahagslegum og menningarlegum þáttum. Nashville mun bjóða flugfélaginu að stækka net sitt á bandarískum markaði enn frekar en áður fyrr voru engin bein flug milli þessara tveggja borga.

Nashville er einnig ein af höfuðborgum tónlistarheimsins og er mjög vinsæl meðal tónlistaráhugamanna. Samkvæmt könnun sem Aer Lingus gerði sögðust 71% Íra vera aðdáendur kántrítónlistar. Meðal þúsund svarenda var áhuginn sérstaklega mikill hjá yngsta hópnum, eða Gen Z, en þar sögðust 87% vera kántríaðdáendur.

Icelandair flaug einnig sitt fyrsta áætlunarflug til Nashville einum degi á undan, eða 11. apríl, og er nú átjándi áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum. Icelandair mun einnig fljúga þangað fjórum sinnum í viku til október.

Íslenska flugfélagið gaf einnig upp svipaðar ástæður fyrir þessum áfangastað en í tilkynningu kom fram að Nashville væri spennandi áfangastaður fyrir tónlist, menningu og matargerð. Þar er meðal annars hægt að sjá hvar Elvis Presley, Dolly Parton, Roy Orbison, Everly-bræður og margir fleiri tóku upp sum sinna frægustu laga.