IS Haf fjárfestingar undirrituðu í gær fjárfestingasamning við Thor Landeldi ehf., en síðarnefnda félagið áformar uppbyggingu á 20.000 tonna laxeldi í Þorlákshöfn.
Um er að ræða þátttöku sjóðsins í hlutafjáraukningu, sem færir sjóðnum 53% hlut í félaginu.
Samkvæmt tilkynningu Arctica Finance, ráðgjafa seljanda, munu norsku fjárfestarnir Frank Yri aðstoðarframkvæmdastjóri Seaborn og Alex Vassbotten, sem m. a. er stjórnarformaður Seaborn, fjárfesta í félaginu.
Báðir hafa umtalsverða reynslu úr laxeldi og fjárfestingastarfsemi tengdri laxeldi en Seaborn er norskt sölufyrirtæki á laxi.
„Félagið hefur tryggt sér 20,3 hektara lóð við Laxabraut 35-41 vestan við Þorlákshöfn. Staðsetningin er afar heppileg fyrir eldi þar sem svæðið er auðugt af fersku vatni og jarðsjó sem þarf til framleiðslu á laxi á landi,“ segir í tilkynningu Arctica en nýtt hlutafé í félaginu verður nýtt til að fjármagna fyrsta áfanga eldisins sem er uppbygging á seiðaeldisstöð.
„Verkefnið er í umhverfismatsferli og gangi áætlanir eftir er gert ráð fyrir að tekið verði á móti fyrstu hrognum í seiðaeldisstöðina haustið 2024,“ segir í tilkynningu Arctica.
Brim, ÚR og lífeyrissjóðir stærstir í IS Haf
IS HAF fjárfestingar slhf. Sjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn er um 10 milljarðar að stærð og fjárfestir í haftengdri starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.
Brim, Útgerðarfélag Reykjavíkur og íslenskir lífeyrissjóðir eru kjölfestufjárfestar í sjóðnum.
Með fjárfestingu IS Haf í Thor Landeldi ehf. er hafin vegferð sem mun þjóna lykilhlutverki í uppbyggingu nýlegrar atvinnugreinar í miklum vexti,
„Hröð uppbygging laxeldis á Íslandi krefst öflugrar aðkomu fjárfesta við hlið aðila með reynslu úr greininni. Mikil þörf er á að styrkja innviði laxeldis til að halda í við vöxtinn og er framleiðsla á seiðum grunnforsenda fyrir farsælum vexti bæði sjókvíaeldis og landeldis. Með fjárfestingu IS Haf í Thor Landeldi ehf. er hafin vegferð sem mun þjóna lykilhlutverki í uppbyggingu nýlegrar atvinnugreinar í miklum vexti,“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga í tilkynningu.
Fagna aðkomu IS Haf
„Fyrirsvarsmenn Thor Landeldi ehf. fagna aðkomu ÍS Haf að uppbyggingu félagsins, en með henni er brautin rudd fyrir metnaðarfull áform félagsins um uppbyggingu á stórskala landeldi á laxi. Landeldi á laxfiskum er einn náttúruvænasti kosturinn til framleiðslu hágæðapróteins sem völ er á í dag. Mikil reynsla er nú þegar komin hérlendis á landeldi og er því um að ræða mjög áhugaverðan fjárfestingarkost,“ segir Jónatan Þórðarson, eldisstjóri Thor Landeldi.