IS Haf fjárfestingar slhf. og Freyr Friðriksson, eigandi og forstjóri KAPP ehf., hafa undirritað samning um að sjóðurinn kaupi 40% hlut í KAPP og leggi félaginu til aukið hlutafé til frekari vaxtar.

Í tilkynningu segir að KAPP hafi verið í stöðugum vexti og er fjárfestingin liður í vaxtaráformum félagsins. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

KAPP er íslenskt tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, framleiðslu, sölu og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Félagið er auk þess umboðs- og þjónustuaðili erlendra framleiðenda á vörum sem tengjast starfsemi félagsins.

Félagið tók nýlega við rekstri Raf ehf. og hefur undanfarin ár stækkað ytri vexti með yfirtökum, til að mynda á Optimar Ísland og Stáltech. Hjá félaginu starfa tæplega 50 manns.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur eigendur og starfsfólk KAPP að sjóður eins og IS Haf sýni rekstri félagsins áhuga með þessari fjárfestingu. Það gefur til kynna að sú vegferð sem við höfum verið á í okkar rekstri hafi verið rétt og sjóðurinn trúi á hanam,“ segir Freyr Friðriksson, eigandi og forstjóri KAPP.

IS Haf fjárfestingar slhf. var stofnaður í febrúar 2023 og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn er 10 milljarðar að stærð og fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni. Fjárfestingum verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.

Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum. Ráðgjafasamningur er á milli Íslandssjóða og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem í sameiningu vinna að öflun og greiningu fjárfestingatækifæra.

„Forskot í framþróun kælibúnaðar fyrir sjávarútveginn, öflug uppbygging stofnenda KAPP og veruleg vaxtartækifæri er grundvöllur fjárfestingar IS Haf í KAPP. Sú þekking, reynsla og sérhæfing sem býr í mannauði KAPP er framúrskarandi og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfulla vegferð í vexti félagsins í haftengdri tækni bæði innanlands sem utan," segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.