IS Haf fjárfestingar, sjóður í rekstri Íslandssjóða, hefur komist að samkomulagi um kaup á meirihluta í sænska félaginu NP Innovation AB. Fjárfestingateymi sjóðsins telur félagið geta náð leiðandi stöðu á heimsvísu í vatnsgæðalausnum fyrir fiskeldi.
Vaxið um 30% á ári
NP Innovation framleiðir búnað sem nýtast við vatnshreinsun og vatnsmeðhöndlun í landeldi og eru helstu framleiðsluvörur félagsins eru CO₂ afloftarar, diskasíur og tromlusíur. Helstu viðskiptavinir eru seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldi en NP selur einnig vatnshreinsilausnir til brunnbátaþjónustu, sveitarfélaga og annars iðnaðar.
NP, sem er stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson, er með höfuðstöðvar og nýsköpunarsetur í Malmö, Svíþjóð. Jafnframt er það með sölu- og þjónustu skrifstofur í Noregi og á Íslandi.
„Fjárfestingin er liður í frekari innri og ytri vaxtaráformum félagsins. Vöxtur tekna félagsins hefur verið um 30% að meðaltali á ári (CAGR) síðustu fjögur árin og námu heildartekjur þess um 2,3 milljörðum króna árið 2024,“ segir í tilkynningu um viðskiptin.
„Félagið gegnir lykilhlutverki í ört vaxandi hluta laxeldisiðnaðar, þ.m.t. uppbyggingu landeldis og stórseiðaframleiðslu.“
Seljendur endurfjárfesta í félaginu
Stærsti seljandinn í viðskiptunum er Broodstock Captial, sem er norskt fjárfestingafélag með sérhæfingu í sjávarútvegi og fiskeldi. Broodstock fjárfesti í NP árið 2018 og hefur leitt vöxt félagsins í samvinnu við Nils Åke Persson, stofnanda þess. Munu þeir, ásamt stofnanda félagsins og lykilstarfsfólki endurfjárfesta í félaginu.
Haft er eftir Håkon Aglen Fredriksen, meðeiganda Broodstock Capital, að fjárfestingarfélagið muni áfram eiga fulltrúa í stjórn NP og hlakki til að styðja við frekari vöxt NP í samvinnu við IS Haf.
„Viðskiptin marka mikilvæg tímamót fyrir NP og er náttúrulegt næsta skref í vegferð til vaxtar. Með innkomu IS Haf sem kjölfestufjárfestis, munum við enn frekar styrkja stöðu okkar á lykilmörkuðum, hraða vexti félagsins, þar sem NP getur veitt fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboð við landeldi á heimsvísu.“ segir Michael Bäärnhielm, forstjóra NP Innovation AB.
Fjórða fjárfesting IS Hafs
IS Haf fjárfestingar slhf. var stofnaður í febrúar 2023 og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn er 10 milljarðar að stærð og fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni.
Um er að ræða fjórðu fjárfestingu IS Haf, en fyrri fjárfestingar eru í Thor landeldi, Kapp og norska félaginu Regenics.
„Veruleg tækifæri liggja í því öfluga forskoti sem NP hefur náð í framþróun vatnsgæðalausna fyrir landeldi. NP hefur á afburða teymi að skipa með sérhæfða þekkingu og hefur alla burði til að vaxa hratt og verða leiðandi í lausnum og þjónustu við landeldi á heimsvísu,“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.
„Kaup á NP er í samræmi við fjárfestingarstefnu IS Haf og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfull vaxtaráform NP og verðmætasköpun og sjálfbærni í vaxandi grein landeldis. Við hlökkum til samstarfs við aðra hluthafa og stjórnendur í NP og spennandi vegferðar framundan.“
Stærstu fjárfestarnir í IS Haf eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. (ÚR) sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum.
„Hreinleiki vatns er lykilforsenda fyrir heilbrigði og gæði fisks í landeldi. NP Innovation hefur víðtæka sérfræðiþekkingu og framúrskarandi lausnir sem styðja við öll stig framleiðslu í landi, frá seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldis á laxi. Meginmarkaðurinn hefur verið Noregur síðustu ár, en félagið hefur verið að stíga skref inn á nýja markaði landfræðilega og í öðrum tegundum sjávarafurða. Við trúum á teymið og stefnu félagsins, og munum styðja við frekari vöxt félagsins,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf.
Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins á Íslandi.
Ráðgjafar kaupanda í viðskiptunum eru Deloitte á Íslandi og í Svíþjóð og ARMA Advisory. Haavind og BBA//Fjeldco eru ráðgjafar seljenda í viðskiptunum.