IS Haf fjárfestingar slhf., sjóður í rekstri Íslandssjóða, og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hafa ásamt fleiri fjárfestum undirritað samning um kaup á 20% hlut í norska líftæknifyrirtækinu Regenics AS. Kaupin eru í formi hlutafjáraukningar í norska félaginu.
Regenics AS framleiðir Collex®, háþróaðar sáraumbúðir, sem eru hannaðar til að bæta og flýta gróanda brunasára og langvinnra sára, þar með talin sár vegna sykursýki. Með Collex® stefnir Regenics AS að því að umbreyta hefðbundnum aðferðum í sárameðferð en hráefnið er að öllu leyti unnið úr hráefni úr hafinu. HTX™ er lífvirka efnið í Collex® og er unnið úr ófrjóvguðum laxahrognum.
Guðbjörg Edda meðal fjárfesta
Stofnað hefur verið félagið Nordic Blue hf. í kringum fjárfestinguna í Regenics. Auk IS Haf fjárfestinga og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja er Guðbjörg Edda Eggertsdóttir fyrrverandi forstjóri Actavis, meðal fjárfesta og hefur hún tekið sæti í Nordic Blue.
„Fjárfestahópurinn hefur mótað vegferð í samvinnu við stjórnendur Regenics og verður hlutaféð m.a. nýtt í klínískar og forklíniskar rannsóknir, styrkingu teymis lykilstarfsfólks og vörðun á leið framleiðsluvara á markað,“ segir í fréttatilkynningu.
Í tengslum við kaupin hafa Nordic Blue hf. og tveir stærstu hluthafar Regenics gert með sér hluthafasamkomulag þar sem félagið hefur veitt Nordic Blue hf. ákveðin réttindi, þ.m.t. tilnefningarrétt til tveggja stjórnarmanna í stjórn félagsins.
IS Haf fjárfestingar eru stærsti hluthafi Nordic Blue. Sjóðurinn, sem var stofnaður í febrúar 2023, er að strstum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Brims og Útgerðarfélags Reykjavíkur.
„Við erum spennt að leggja af stað í þessa vegferð með Regenics en félagið fellur einkar vel að áherslum sjóðsins varðandi fjárfestingar á sviði sjávarlíftækni. Við teljum að Regenics hafi byggt upp góðan grunn og hafi gríðarlega möguleika til frekari þróunar á sviði sárameðhöndlunar. Samstarf við reynda fjárfesta í lyfja- og líftæknigreinum er afgerandi fyrir fjárfestingu sem þessa og við hlökkum til vegferðarinnar framundan,“ segir Brynjólfur Gísli Eyjólfsson, sjóðstóri hjá IS Haf fjárfestingum.
„Við erum spennt fyrir að fá inn fjárfesta sem þekkja tækifærin sem felast í félaginu og vörum þess,“ er haft eftir Jan Alfheim, stjórnarformanni Regenics AS. „Fjárfesting þeirra og þátttaka í stjórn mun vera mikils virði fyrir Regenics og hjálpa okkur að koma okkar fyrstu vöru Collex® í fyrsta stig klínískra rannsókna í meðferð á brunasárum og áfram inn á markað“
„Það er mjög áhugavert að sjá hvað hafið býr yfir miklum leyndardómum, sem geta nýst í heilbrigðisgeiranum. Regenics er að þróa sárameðferð, sem mikil þörf er fyrir í heiminum í dag. Það verður spennandi að fá að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Guðbjörg Edda.