Isavia hefur hafið útboð á sérleyfisrými í og við flugstöð Keflavíkurflugvallar fyrir rekstraraðila sem gæti annast farþegaflutning með hópferðabílum til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Í útboðinu er lögð áhersla á bætta aðstöðu fyrir hópferðabifreiðar á vellinum, bæði inni í flugstöðinni og á biðsvæði fyrir utan hana.

Í skriflegu svar frá Isavia segir að útboðið sé gert með bætta þjónustu gesta í KEF í huga og vill Isavia stíga skref í átt að sjálfbærari samgöngum farþega til og frá flugvellinum.

„Isavia ohf. ber skylda til að bjóða út öll sérleyfisrými fyrir viðmiðunarfjárhæðum í KEF á grundvelli reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum.“

Í útboðinu, sem birtist á Útboðsvefnum, segir að samstarfsaðili muni jafnframt þurfa að setja upp aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu til að getað þjónustað leið sína til Keflavíkur. Samið verður þá til fjögurra ára með valfrjálsri framlengingu til eins árs og myndi hefjast í maí 2025.

Isavia bauð síðast út sérleyfisaðstöðu hópferðabifreiða í KEF árið 2017 en það útboð var í umsjón Ríkiskaupa.