Ársreikningi Isavia fyrir síðasta ár hefur verið synjað af Ársreikningaskrá sökum skorts á áritun löggilts endurskoðanda eins og lög kveða á um.

Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum í dag en reikningurinn – sem skilað var fyrir rúmum tveimur vikum – er aðeins sagður hafa borið áritun Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda, sem þrátt fyrir embættistignina er ekki löggiltur endurskoðandi. Áritun hans dugir því ekki samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun.

Félag löggiltra endurskoðenda tók málið upp í síðasta mánuði í kjölfar áritunar Guðmundar og sendi félagsmönnum um það bréf auk þess sem Endurskoðendaráð, sem gegnir eftirlitshlutverki í þessu tilliti, tók málið til athugunar.

Í eldri ársreikningum Isavia síðustu ár er að finna áritun bæði Guðmundar sem ríkisendurskoðanda, sem tekur til eftirlitsþáttarins, sem og áritun „óháðra endurskoðenda“ sem eru löggiltir sem slíkir og árita hin eiginlegu reikningsskil.

Þetta verklag var tekið upp árið 2019 eftir að Skúli Eggert Þórðarson þáverandi ríkisendurskoðandi undirritaði ársreikning Íslandspósts en skorti líkt og Guðmund til þess löggildingu. Því virðist hafa verið fylgt síðustu ár, en breyting orðið á í þetta sinn.