Rekstrarafkoma samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á árinu 2024 var jákvæð um 10,7 milljarða króna samanborið við jákvæða rekstrarafkomu upp á 8,1 milljarð króna árið 2023.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu jukust tekjur um 15% eða 6,9 milljarða króna og námu 51,9 milljörðum króna. Farþegar um Keflavíkurflugvöll voru rúmlega 8,3 milljónir á árinu samanborið við um 7,8 milljónir árið 2023.

Heildarafkoma ársins var jákvæð um 5,2 milljarða króna samanborið við 2,1 milljarð króna árið 2023.

Jákvæð gengisáhrif vegna langtímalána námu um 2,1 milljarði króna á árinu 2023 samanborið við 180 milljónir króna árið á undan.

„Eldsumbrot í lok árs 2023 höfðu neikvæð áhrif á fjölda farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári sem gerði það að verkum að við náðum ekki tekjumarkmiðum okkar,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.

„Því til viðbótar fengum við hlutfallslega fleiri tengifarþega en við gerðum ráð fyrir sem hafði á sama tíma neikvæð áhrif á tekjur Keflavíkurflugvallar. Aftur á móti tökum við fagnandi á móti tengifarþegunum okkar þar sem þau styrkja tengistöðina á Keflavíkurflugvelli til framtíðar. Afkoma félagsins og arðsemi þess var engu að síður góð en til að standa undir þeirri uppbyggingu sem er fram undan er nauðsynlegt að leita áfram leiða til að auka enn frekar arðsemi af rekstri félagsins“.

Liðið ár var stærsta fjárfestingaár frá stofnun félagsins en þær námu um 18,0 milljörðum króna og þar af féllu um 16,9 milljarðar til á Keflavíkurflugvelli.

Á þessu ári og komandi árum er áfram gert ráð fyrir miklum fjárfestingaumsvifum tengt uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar. Það er gert ráð fyrir hóflegri fjölgun farþega árið 2025, eða um 0,8%, en að sú fjölgun verði drifin áfram af komufarþegum til Íslands. Þá gera áætlanir félagsins ráð fyrir að um metár verði að ræða í fjölda ferðafólks til Íslands.

Aðalfundur Isavia verður haldinn 26. mars næstkomandi og þá verður ársskýrsla félagsins fyrir árið 2024 gefin út.

Lykiltölur úr ársuppgjöri Isavia 2024

  • Tekjur: 51.917 milljónir króna
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA): 10.659 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) : 6.106 milljónir króna
  • Heildarafkoma (tap) eftir skatta: 5.231 milljón króna
  • Handbært fé: 5.889 milljónir króna
  • Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 17.958 milljónir króna
  • Eigið fé í lok tímabils: 49.293 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall: 42,9%