Isavia hefur samið við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland um aðgang að villuveiðigátt fyrirtækisins til að fyrirbyggja árásir á net- og tölvukerfi fyrirtækisins. Flugiðnaðurinn reiðir sig á flókin tæknikerfi þar sem netárásir geta haft alvarleg áhrif á rekstur og öryggi.

Í villuveiðigátt Defend Iceland er hermt eftir aðferðum tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa til að leita með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum.

„Við erum afar stolt af því að ganga til samstarfs við Defend Iceland og nýta villuveiðigátt þeirra sem mikilvæga viðbót við varnir Isavia. Þetta samstarf undirstrikar skuldbindingu okkar um að tryggja öryggi kerfa okkar og þar með farþega og starfsfólks,” segir Bæring Logason, upplýsingaöryggisstjóri Isavia.

Frá því í mars 2024 hafa rúmlega 240 veikleikar verið tilkynntir í gegnum villuveiðigáttina hjá viðskiptavinum Defend Iceland. Rúmlega 95% af þeim hafa verið áður óþekktir veikleikar og því ekki auðkenndir með hefðbundnum skönnunartólum.

Félagið segir að aukin þekking á tilvist og eðli öryggisveikleika í kerfum fyrirtækja og stofnana landsins sé forsenda þess að hér byggist upp öruggara stafrænt samfélag.

„Við fögnum því að fá fyrirtæki líkt og Isavia, sem stýrir einum helsta lykilinnviði landsins, í ört vaxandi hóp viðskiptavina. Öruggar og áreiðanlegar samgöngur eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra og með villuveiðigátt Isavia opnast leið til að virkja þekkingu heiðarlegra öryggissérfræðinga, samfélaginu til heilla. Við hlökkum til að vinna með Isavia til að stuðla að öruggara stafrænu samfélagi,” segir Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland.