Neytendastofa hefur sektað Isavia um 500.000 krónur fyrir að hafa brotið gegn lögum um góða viðskiptahætti sem og reglum um verðmerkingar með því að veita neytendum ekki fullnægjandi upplýsingar um öll gjöld tengd gjaldskyldum svæðum félagsins.

Á síðu Neytendastofu segir að brot Isavia tengist þjónustugjaldinu sem lagt er á ökumenn við brottfararennu Keflavíkurflugvallar eftir 5 mínútna viðveru.

Stofnunin komst einnig að þeirri niðurstöðu að Isavia hefði viðhaft villandi viðskiptahætti með því að láta líta út fyrir að sjálfvirkt greiðslukerfi/gjaldtaka væri til staðar án þess að tekið væri fram að virkja þurfi það sérstaklega.

Neytendastofa ákvað að gera úttekt á upplýsingagjöf og viðskiptaháttum fyrirtækja sem reka bílastæðaþjónustu á Íslandi þann 13. júní sl. í kjölfar ábendinga og laut úttektin að upplýsingagjöf, verðmerkingum og almennum viðskiptaháttum.

Í svörum Isavia var m.a. tekið fram að verðskrár fyrir notkun gjaldskyldra svæða væru aðgengilegar á svæðunum og að félagið teldi leturstærð á merkingum eðlilega og auðlæsilega miðað við magn texta. Auk þess sé vísað til þjónustugjalds með stjörnumerkingu í verðskrá.

Neytendum stendur til boða að greiða fyrir viðveru á gjaldskyldum svæðum Isavia með stafrænni greiðslulausn, greiðsluvél eða með kröfu í heimabanka hafi ekki verið greitt með fyrstnefndu valkostunum.

Greiði neytendur fyrir viðveru á gjaldskyldum svæðum með smáforriti Parka eða með kröfu í heimabanka greiða þeir gjald í tengslum við þá greiðsluleið sem valin er að viðbættu viðverugjaldi.

„Við athugun Neytendastofu á brottfararrennu félagsins og aðsendum myndum af öðrum gjaldskyldum svæðum varð stofnunin vör við að ekki var gerð grein fyrir þóknun sem leggst á neytendur kjósi þeir að greiða fyrir viðveru með stafrænni greiðslulausn. Þá varð stofnunin einnig vör við að þjónustugjald vegna kröfu í heimabanka var ýmist ekki getið eða getið í smærra letri en aðrar upplýsingar á merkingum gjaldskyldra svæða,“ segir í ákvörðun.

Stofnunin segir jafnframt að seljendum beri ekki aðeins skyldu til að birta upplýsingar um verð þjónustu, heldur þurfi þær upplýsingar að vera auðsjáanlegar. Neytendur ættu því að geta séð verð þjónustunnar með auðveldum hætti án fyrirhafnar og án þess að þurfa að leita að þeim upplýsingum í verðskrá félagsins.

„Neytendastofa getur ekki fallist á þau sjónarmið Isavia að gerð sé grein fyrir þjónustugjaldi vegna kröfu í heimabanka með skýrum hætti. Letrið sem notað er til að greina frá gjaldinu er töluvert smærra en annað letur á skiltunum þar sem verðskrá er birt. Neytendur þurfa því að hafa fyrir því að leita að upplýsingum um þjónustugjaldið í verðskrám félagsins þegar bifreið er lögð eða keyrð inn á gjaldskylt svæði.“

Isavia segir jafnframt að við innkeyrslu í brottfararennu séu neytendur upplýstir um að greiðsluskylda myndist ekki fyrr en eftir 5 mínútur. Neytendur gangi því að mati Neytendastofu að geta keyrt í gegnum rennuna án þess að stofna til viðskipta við Isavia þar sem miðgildi dvalartíma í rennunni er undir þrjár mínútur samkvæmt Isavia.

„Þrátt fyrir að neytendur hafi góða sýn yfir rennuna þegar ekið er inn í hana eru ýmsar aðstæður sem geta myndast og stíflað rennuna sem neytendur hafa ekki stjórn á. Það er álit Neytendastofu að með hliðsjón af staðsetningu myndavéla, skorti á upplýsingum um að þjónustugjald leggist á eftir 5 mínútna viðveru og að teknu tilliti til þess þrönga tímaramma sem neytendum er gefinn til affermingar sé tilhögun gjaldtöku Isavia í umræddri rennu viðskiptahættir sem séu óréttmætir gagnvart neytendum.“

Telur Neytendastofa jafnframt að með því að haga gjaldskyldu þannig að neytandi geti ekki hætt við kaup á þjónustu eftir að ekið er inn í rennuna og sé tilneyddur til að kaupa þjónustu af Isavia vegna aðstæðna sem myndast geta og hann hafi ekki stjórn á, hafi Isavia viðhaft viðskiptahætti sem eru líklegir til að raska fjárhagslegri hegðun neytenda.