Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnir áform Isavia um að áfrýja ákvörðun Neytendastofu frá því í byrjun júní um upplýsingagjöf og viðskiptahætti vegna gjaldskyldra svæða á Keflavíkurflugvelli.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingagjöf og viðskiptahættir væru ekki í samræmi við lög og sektaði því Isavia um 500 þúsund krónur þann 16. júlí sl.

Það var álit stofnunarinnar að með hliðsjón af staðsetningu myndavéla, skorti á upplýsingum um að þjónustugjald leggist á eftir fimm mínútna viðveru og teknu tilliti til þess þrönga tímaramma sem neytendum er gefinn til affermingar væri gjaldtakan í brottfararrennu Isavia óréttmæt gagnvart neytendum.

Breki segir að burtséð frá þröngum tímaramma séu jafnframt margir þættir sem ökumenn hafi enga stjórn á sem gætu tafið umferð og leitt til sektar. Í byrjun maí fjallaði mbl.is til að mynda um þá umferð sem myndast á háannatíma við rennuna.

„Það er heldur ekki búið að gera neina úttekt á mælunum hjá Isavia og það veit enginn nákvæmlega hvar tíminn byrjar og hvar hann endar. Bensíndælur eru til dæmis teknar út og mældar með reglulegu millibili til að tryggja að þær séu að dæla rétt og það sama er gert með vogir í verslunum.“

Hann spyr hvort það sé ekki hægt að hvetja frekar til samstarfs til að komast að sameiginlegri niðurstöðu frekar en einhverra málaferla. „Isavia er opinbert ríkisfyrirtæki en þeir haga sér eiginlega verst allra og virðast alveg vera búnir að gleyma því fyrir hvern þeir starfa.“