Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 1,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf sextán félaga lækkuðu í verði og fjögurra hækkuðu.
Ísfélagið leiddi lækkanir en gengi hlutabréfa útgerðarfélagsins féll um 5,2% í 40 milljóna króna veltu og stendur nú í 109 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Ísfélagsins hefur aldrei verið lægra frá skráningu í Kauphöllina í árslok 2023.
Alls hefur gengi útgerðarfélagsins fallið um 20% frá því að atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra kynntu áform um verulega hækkun veiðigjalda þann 25. mars síðastliðinn. Umrætt frumvarp var samþykkt á Alþingi í dag.
Ísfélagið var skráð á aðalmarkað í desember 2023 að undangengnu tæplega 18 milljarða króna almennu hlutafjárútboði og voru hluthafar félagsins 4.634 talsins í árslok 2023 og 3.415 í lok árs 2024.
Útboðsgengi í áskriftarbók A, fyrir almenna fjárfesta, í ofangreindu útboði var 135 krónur á hlut og gengið í bók B, fyrir tilboð yfir 20 milljónir, var 155 krónur á hlut.
Núverandi markaðsgengi hlutabréfa Ísfélagsins er 19,3% lægra en útboðsgengið í bók A og 29,7% lægra en í bók B.
Auk Ísfélagsins féll gengi hlutabréfa Alvotech, Sýnar og Kviku banka um meira en 2% í dag.
Hlutabréfaverð Kviiku banka lækkaði um 2,2% í 186 milljóna veltu og stendur nú í 17,75 krónum á hlut sem er 7,4% lægra en viðmiðunarverðið á gengi bankans í samrunaviðræðunum við Arion banka.
Þá féll gengi hlutabréfa Alvotech um 2,3% í 93 milljóna veltu og stendur nú í 1.045 krónum. Það var síðast lægra 7. maí síðastliðinn. Ein skýring fyrir lækkun á gengi Alvotech er stærri skortstaða í félaginu, líkt og Innherji fjallaði um um helgina.
Eftir talsverða hækkun undanfarna daga féll hlutabréfaverð Sýnar um 2,6% í 16 milljóna veltu og stendur nú í 29,6 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur engu að síður hækkað um 20% undanfarinn mánuð.