Iceland Seafood lækkaði um 4,8% í rúmlega 40 milljón króna viðskiptum í dag. Gengi félagsins stendur nú í 6 krónum á hlut.
Félagið birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær en félagið skilaði 9,9 milljón evra tapi í fyrra, eða sem nemur 1,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar hagnaðist ISI um 8,7 milljónir evra árið 2021.
Tapið í fyrra má einkum rekja til 18,2 milljóna evra tapreksturs, eða sem nemur 2,8 milljörðum króna, hjá breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK.
Auk ISI lækkuðu sjö félög á aðalmarkaði í dag. Þar af lækkaði Síldarvinnslan um 0,85% í 325 milljón króna viðskiptum og Marel um 0,35% í 390 milljóna veltu.
Heildarvelta á markaði nam þremur milljörðum króna. Þar af var mesta veltan með bréf Haga, um 405 milljónir króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um rúm þrjú prósentustig í dag.
Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest allra félaga á markaði í dag, um 3,75% í 333 milljóna veltu.