Iceland Seafood International (ISI) hefur lokið rúmlega 1 milljarðs króna hlutafjáraukningu samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins í morgun.
Stjórn félagsins fékk heimild á hluthafafundi í október að auka hlutafé félagsins um allt að 200 milljónir að nafnverði til að styrkja fjárhagsstöðu félagsins.
Upphaflega var miðað við 5,55 krónu gengi hlutabréfa félagsins og ætlaði ISI að sækja allt að 1,1 milljarð króna. Að lokum var miðað við 5,40 krónu gengi og sótti félagið 1,08 milljarð króna með útgáfu nýs hlutafjár.
Samsvarar það um það bil 6,5% eignarhlut í Iceland Seafood.
Dagslokagengi félaggins í gær var 5,65 krónur.
Iceland Seafood réðst í 900 milljóna króna hlutafjárútboð í maí síðastliðnum og var gengið í útboðinu 6,0 krónur á hlut.
Fjórir stærstu hluthafar félagsins tóku þátt í útboðinu og tryggðu sér óbreytta eignarhlutdeild í félaginu.
Í september lét Bjarni Ármannsson af störfum sem forstjóri Iceland Seafood og Ægir Páll Friðbertsson tók við en samhliða því seldi Bjarni 10,8% hlut sinn til Brims. Gengið í viðskiptunum var 5,3 krónur á hlut.