Iceland Seafood International (ISI) tapaði 20,7 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins sem samsvarar rúmlega 3,1 milljarði króna. Mun það vera töluvert meira tap en á sama tímabili í fyrra þegar félagið tapaði 5 milljónum evra.
Í lok ágúst greindi félagið frá því að það væri að yfirgefa Bretlandsmarkað en ISI náði samkomulagi um sölu á öllu hlutafé í breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK til danska sjávarafurðafyrirtækisins Espersen A/S.
Í uppgjörinu segir að félagið bókfæri um 18,8 milljóna evru tap vegna sölunnar sem var kláruð á fjórðungnum.
Neikvæð áhrif bresku starfseminnar á ISI á árinu 2023 voru áætluð um 15 milljónir punda samkvæmt uppgjöri annars ársfjórðungs. Virðisrýrnun rekstrarfjármuna var þar metið upp á 7,1 milljónir punda og afskriftir birgða upp á 1,32 milljónir punda.
Eignir samstæðunnar í lok september voru bókfærðar á 250,3 milljónir evra sem er 40 milljón evrum lægra en í upphafi árs.
Rekstrarhagnaður fyrir skatta og afskriftir var neikvæður um 1,9 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins í samanburði við 8,7 milljón evra hagnað 2022.
Sölutekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi námu 95,8 milljónum evra sem er 11% lægra en á þriðja ársfjórðungi 2022. Sölutekjur á fyrstu 9 mánuðum ársins námu 318,1 milljónum evra og er 1% hærra á milli ára en það stafar af öflugum fyrsta ársfjórðungi.
„Samdráttur í kaupmætti í aðalviðskiptalöndum“
Þann 24. september var tilkynnt að Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International (IS), væri að láta af störfum eftir að hafa gegnt stöðunni í fimm ár. Ægir Páll Friðbertsson var ráðinn nýr forstjóri Iceland Seafood.
Samhliða þessu seldi Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna, allan 10,8% eignarhlut sinn í félaginu til útgerðarfélagsins Brims á 1.644 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 5,3 krónur á hlut. Dagslokagengi ISI var 5,7 krónur í Kauphöllinni í dag.
Samkvæmt uppgjöri félagsins hafði óðaverðbólga og háir vextir neikvæð áhrif á kaupmátt og þar með neikvæð áhrif á eftirspurn.
Þá réðst fyrirtækið í verðbreytingar á fjórðungnum sem hafa neikvæð áhrif til skamms tíma en jákvæð áhrif til lengri tíma.
„Samdráttur í kaupmætti í aðalviðskiptalöndum í bland við áframhaldandi óvissu í alþjóðastjórnmálum hefur leitt til dræmrar sölu á þriðja ársfjórðungi,“ segir Ægir Páll Friðbertsson forstjóri ISI í uppgjörinu.
Ægir segir að sala samstæðunnar á Iceland Seafood UK hafi spilað stóran þátt í slæmri afkomu þriðja ársfjórðungs en hann trúi því að eftir standi fyrirtæki á Spáni og Írlandi sem verða arðbær í framtíðinni.
„Markmiðið er að gera Iceland Seafood tilbúið í að takast á við áskoranir framtíðarinnar sem ég trúi að verði félaginu, eigendum og starfsmönnum í hag.“