Iceland Seafood International (ISI) tapaði 9,9 milljónum evra á síðasta ári, eða um 1,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Til samanburðar hagnaðist ISI um 8,7 milljónir evra árið 2021.

Tapið í fyrra má einkum rekja til 18,2 milljóna evra tapreksturs, eða sem nemur 2,8 milljörðum króna, hjá breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK. Félagið stöðvaði nýlega söluferli á breska dótturfélaginu eftir að ekki tókst að ná samkomulagi við áhugasama aðila. Breska félagið er þó áfram flokkað sem eign til sölu í bókum ISI.

Sala ISI nam 420,8 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 64 milljörðum króna, og jókst um 11% frá fyrra ári.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 290 milljónir evra í árslok 2022, eða um 44 milljarða króna. Eigið fé nam 81 milljón evra eða um 12,5 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Í afkomutilkynningu félagsins segir að reksturinn hafi orðið fyrir miklum áhrifum af fordæmalausum kostnaðarhækkunum og mjög sveiflukenndu hrávöru- og öðru aðfangaverði. Það hafi tekið tíma að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Bjarni vitnar í Churchill

Bjarni Ármannson, forstjóri ISI, segir að síðasta ár hafi verið afar krefjandi en að rekstrarumhverfið sé að komast á eðlilegra stig aftur. Félagið horfi til lengri tíma og muni fjárfesta áfram í vörumerkjum sínum og sjálfvirknivæðingu.

„Við sjáum tækifæri til að snúa aftur á arðbæra slóð og trúum á ummæli Winston Churchill að „í erfiðleikum leynast tækifæri“.“