Sigríður Jó­dís Gunnars­dóttir, snyrtifræðingur og fram­bjóðandi Sjálf­stæðis­flokksins í Norðaustur­kjör­dæmi, gefur lítið fyrir áform Sam­fylkingarinnar um að loka „EHF-gatinu“ svo­kallaða.

Slík að­gerð beinist fyrst og fremst að fólki með iðn­menntun og öðrum með sér­fræðikunnáttu sem stofnað hafa rekstur í kringum hana.

„Stundum heyri ég fólk í kringum mig tala gá­leysis­lega um fyrir­tækja­rekstur sem þekkir lítið til og telur að fólk sem eigi og reki fyrir­tæki lifi við mikla vel­megun. Það er síður en svo og ég þekki það af eigin raun. Því er oft fleygt fram í gríni að EHF standi fyrir Ekkert Helvítis Frí - það er því miður ísköld stað­reynd hjá all­mörgum, ef ekki öllum, fyrir­tækja­eig­endum, verktökum og ein­yrkjum,” skrifar Sigríður Jó­dís um rekur snyrti­stofuna Doríu á Dal­vík.

Hún segir einyrkja standa fyrir því að reglu­verkið sé sífellt að þyngjast og kröfurnar aukast. Oft á tíðum er verið að þyngja regluverk um „al­gjöran óþarfa sem stenst enga skoðun.”

„Frasar um gull­húðanir á reglu­verkinu ættu að vera orðnir kunnugir fólki - þessar gull­húðanir eru óþar­f­lega íþyngjandi ásamt þungri skatt­byrði. Þessa yfir­ferð mína mætti kalla inn­legg í kjara­baráttu ein­yrkja og smærri fyrir­tækja því það eru fáir sem tala okkar máli. Laun ein­yrkja í mínum geira ráðast ein­göngu af því hve margir við­skipta­vinir koma í stólinn,” skrifar Sigríður Jó­dís.

Hún segist þurfa að leggja fyrir til að eiga fyrir veikinda­dögum fyrir bæði sig og börnin sín sem og öllum öðrum fríum.

„Styttingu vinnu­viku höfum við í faginu aldrei séð sem og flestir aðrir í einka­geiranum. Ég get vissu­lega stjórnað mínum vinnutíma en á móti kemur eðli­lega krafa frá mínum við­skipta­vinum um að ég sé í vinnu þegar þeir eru ekki að vinna sem hentar fjöl­skyldu­lífinu frekar illa. Nú kynnu ein­hverjir að spyrja af hverju ég er að standa í þessu? Stutta svarið er að ég hef ótrú­lega mikla ástríðu fyrir vinnunni minni og það gleður mig alla daga þegar fólk fer endur­nært frá mér,“ skrifar Sigríður Jó­dís.

Hún bætir við að hún þurfi að borga al­eigu og allan rekstrar­kostnað sem og flutnings­kostnað fyrir aðföng. Af vinnunni greiðir hún svo fullan tekju­skatt eins og aðrir ásamt því að greiða fullan virðis­auka­skatt.

„Það er því ekki há pró­senta af inn­komu dagsins sem situr eftir. Það ætti því kannski að gefa auga­leið að starfs­aldur í þessum stéttum er mjög stuttur og fólk oft og tíðum vinnur sér til húðar. Við eigum að ein­falda og lækka skatta og gefa öflugu, skapandi fólki svigrúm til að vaxa og sýna lit í sam­félaginu okkur öllum til heilla,“ skrifar Sigríður Jó­dís.

„Ég heyri allt of fólk tala um Sjálf­stæðis­flokkinn sem flokk fyrir ríka fólkið en í mínu til­felli finn ég mig í sjálf­stæðis­stefnunni af allt öðrum ástæðum. Ástæðan er sú að sjálf­stæðis­stefnan leggur mikið upp úr því að styðja við og auka frelsi fólks sem þorir að taka áhættu, fram­kvæma hug­myndirnar og stíga út fyrir þæginda­rammann,“ skrifar Sigríður Jó­dís að lokum.