Sigríður Jódís Gunnarsdóttir, snyrtifræðingur og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, gefur lítið fyrir áform Samfylkingarinnar um að loka „EHF-gatinu“ svokallaða.
Slík aðgerð beinist fyrst og fremst að fólki með iðnmenntun og öðrum með sérfræðikunnáttu sem stofnað hafa rekstur í kringum hana.
„Stundum heyri ég fólk í kringum mig tala gáleysislega um fyrirtækjarekstur sem þekkir lítið til og telur að fólk sem eigi og reki fyrirtæki lifi við mikla velmegun. Það er síður en svo og ég þekki það af eigin raun. Því er oft fleygt fram í gríni að EHF standi fyrir Ekkert Helvítis Frí - það er því miður ísköld staðreynd hjá allmörgum, ef ekki öllum, fyrirtækjaeigendum, verktökum og einyrkjum,” skrifar Sigríður Jódís um rekur snyrtistofuna Doríu á Dalvík.
Hún segir einyrkja standa fyrir því að regluverkið sé sífellt að þyngjast og kröfurnar aukast. Oft á tíðum er verið að þyngja regluverk um „algjöran óþarfa sem stenst enga skoðun.”
„Frasar um gullhúðanir á regluverkinu ættu að vera orðnir kunnugir fólki - þessar gullhúðanir eru óþarflega íþyngjandi ásamt þungri skattbyrði. Þessa yfirferð mína mætti kalla innlegg í kjarabaráttu einyrkja og smærri fyrirtækja því það eru fáir sem tala okkar máli. Laun einyrkja í mínum geira ráðast eingöngu af því hve margir viðskiptavinir koma í stólinn,” skrifar Sigríður Jódís.
Hún segist þurfa að leggja fyrir til að eiga fyrir veikindadögum fyrir bæði sig og börnin sín sem og öllum öðrum fríum.
„Styttingu vinnuviku höfum við í faginu aldrei séð sem og flestir aðrir í einkageiranum. Ég get vissulega stjórnað mínum vinnutíma en á móti kemur eðlilega krafa frá mínum viðskiptavinum um að ég sé í vinnu þegar þeir eru ekki að vinna sem hentar fjölskyldulífinu frekar illa. Nú kynnu einhverjir að spyrja af hverju ég er að standa í þessu? Stutta svarið er að ég hef ótrúlega mikla ástríðu fyrir vinnunni minni og það gleður mig alla daga þegar fólk fer endurnært frá mér,“ skrifar Sigríður Jódís.
Hún bætir við að hún þurfi að borga aleigu og allan rekstrarkostnað sem og flutningskostnað fyrir aðföng. Af vinnunni greiðir hún svo fullan tekjuskatt eins og aðrir ásamt því að greiða fullan virðisaukaskatt.
„Það er því ekki há prósenta af innkomu dagsins sem situr eftir. Það ætti því kannski að gefa augaleið að starfsaldur í þessum stéttum er mjög stuttur og fólk oft og tíðum vinnur sér til húðar. Við eigum að einfalda og lækka skatta og gefa öflugu, skapandi fólki svigrúm til að vaxa og sýna lit í samfélaginu okkur öllum til heilla,“ skrifar Sigríður Jódís.
„Ég heyri allt of fólk tala um Sjálfstæðisflokkinn sem flokk fyrir ríka fólkið en í mínu tilfelli finn ég mig í sjálfstæðisstefnunni af allt öðrum ástæðum. Ástæðan er sú að sjálfstæðisstefnan leggur mikið upp úr því að styðja við og auka frelsi fólks sem þorir að taka áhættu, framkvæma hugmyndirnar og stíga út fyrir þægindarammann,“ skrifar Sigríður Jódís að lokum.