Hagfræðiprófessorinn Kenneth Rogoff, annar af höfundum hinnar mikilvægu hagrannsóknar This Time Is Different ásamt því að vera stórmeistari í skák, horfir með öðrum hætti í taflið eins og það stendur núna, en þau sem eru bjartsýn á horfur í heimsbúskapnum.

Það er vissulega miðtaflið sem stendur uppi í greiningu hans á grein sem birtist nýlega á vegum Project Syndicate. Hann bendir á að engin ástæða sé til bjartsýni meðan allt er á huldu með framvindu endataflsins í Úkraínu. Hvernig sem hin hetjulega vörn Úkraínumanna gagnvart rússneska innrásarliðinu fer þá er mikil hætta að atburðarásin setji mark sitt á framþróun alþjóðahagkerfisins. Svo vitnað sé í Rogoff orðrétt þá segir hann eftirfarandi:

„Tökum sem dæmi að Vladímir Pútín ákveði að beita strategískum kjarnavopnum í örvæntingu sinni og úrkulnun. Það myndi leiða til glundroða og hruns á hlutabréfamörkuðum heimsins. Það liggur ljóst fyrir. Hugsanleg viðbrögð kínverskra stjórnvalda við slíkri atburðarás eru ekki jafn fyrirsjáanleg. Ef Xi Jinping myndi fordæma slíka beitingu kjarnorkuvopna en á sama tíma halda áfram að kaupa olíu af Rússum og aðra hrávöru yrði ljóst að Vesturlönd þyrftu að grípa til enn harðari þvingunaraðgerða gagnvart þeim ríkjum sem eiga í viðskiptum við rússnesku stríðsvélina – þá fyrst og fremst Kína og Indland.“

Eins og lesendur Viðskiptablaðsins vita þá er Rogoff hvorki virkur í athugasemdum né reglulegur símavinur Útvarps Sögu heldur virtur hagfræðingur og greinandi alþjóðamála. Það er því ískyggilegt að hann sjái slíka atburðarás sem raunhæfa sviðsmynd.

Fjallað var um horfur heimsbúskapnum í Viðskiptablaðinu sem kom út 9. febrúar.