Evrópu­sam­bandið (ESB) hefur sett Ís­land á lista yfir við­skipta­hindranir sem ríki utan sam­bandsins beita gagn­vart út­flutnings­fyrir­tækjum innan þess.

Til­efnið er toll­flokkun pitsu­osts með íblandaðri jurta­olíu, sem ís­lensk stjórn­völd ákváðu að toll­flokka með háum tollum árið 2020. Ákvörðunin var tekin þvert á ráð­leggingar Alþjóða­tolla­stofnunarinnar (WCO) og í and­stöðu við af­stöðu belgískra tolla­yfir­valda og fram­kvæmda­stjórnar ESB.

Málið hófst þegar Danól ehf., félags­maður FA, hóf inn­flutning á pitsu­osti með jurta­olíu frá Belgíu. Félag at­vinnu­rek­enda (FA) fagnar því að nýr fjár­málaráðherra hyggst nú leiðrétta toll­flokkunina til fyrra horfs með nýrri laga­setningu.

Upp­haf­lega var osturinn flokkaður í 21. kafla tollskrár, sem er toll­frjáls. Hins vegar þrýstu Mjólkur­sam­salan og Bænda­samtök Ís­lands á ís­lensk stjórn­völd að flokka vöruna í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla. Undir þrýstingi frá fjár­málaráðu­neytinu breytti Skatturinn toll­flokkuninni.

Ákvörðunin vakti mikla gagn­rýni. Starfs­menn tolls­viðs Skattsins sögðu sig frá málinu í mót­mæla­skyni og yfir­toll­vörður bar síðar fyrir dómi að fjár­málaráðu­neytið hefði gert em­bættinu að „fremja ólög“.

Í mars 2023 komst Alþjóða­tolla­stofnunin (WCO) að þeirri niður­stöðu að osturinn ætti að vera toll­frjáls sam­kvæmt 21. kafla tollskrár. Ís­lensk stjórn­völd neituðu hins vegar að fara eftir því áliti og báru m.a. fyrir sig dóm í máli Danóls gegn ríkinu. Síðar kom í ljós að dómstólar höfðu ekki fengið að­gang að öllum gögnum, þar á meðal af­stöðu ESB og WCO.

Eftir kvörtun belgísks út­flytjanda til fram­kvæmda­stjórnar ESB var Ís­land sett á lista sam­bandsins yfir við­skipta­hindranir. Í skýringum ESB segir að ís­lensk stjórn­völd hafi rang­lega flokkað vöruna í toll­flokk sem beri 30% verð­toll og 798 króna magn­toll á hvert kíló.

Danól stefndi ís­lenska ríkinu í fyrra fyrir m. a. að hafa leynt mikil­vægum gögnum fyrir Lands­rétti er ríkið hafði betur gegn Danól í deilunum.

Í viðtali við Við­skipta­blaðið í fyrra sagði Andri Þór Guð­munds­son, for­stjóri Öl­gerðarinnar, málið í heild sinni vera mikil von­brigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í málinu en á endanum eru það neyt­endur sem tapa þegar ríkið fer svona fram.

„Það voru okkur mikil von­brigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í þessu máli en sú leið sem eðli­legt er að fara þegar sterk rök og mál­efna­legar ástæður duga ekki til að snúa við, að okkar mati, röngum ákvörðunum hins opin­bera, er að bera málið undir dómstóla,” sagði Andri Þór.

Um­rædd gögn sem yfir­völd földu fyrir dómstólum tengdust meðal annars af­stöðu Evrópu­sam­bandsins og Alþjóða­tolla­stofnunarinnar (WCO) um hvernig eigi að flokka vöruna en ESB og WCO eru sammála toll­flokkun Danól á vörunni. Form­leg af­staða ESB um fram­kvæmd ís­lenskra toll­yfir­valda var send Skattinum, hinn 5. október 2021, um fimm mánuðum áður en dómur Lands­réttar gekk.

Þess ber að geta að ákvörðun toll­gæslu­stjóra að flytja vöruna milli toll­flokka, þvert á skráningar ESB og WCO, gerði inn­flutning hennar til landsins ómögu­legan þar sem álagning hárra gjalda leiddi til þess að enginn ávinningur var af því að selja hana.

Mun það óneitan­lega vera ávinningur fyrir sam­keppnisaðila Danól en fyrir­tækið sakar Mjólkur­samsöluna um að hafa þrýst á stjórn­völd að breyta tollskráningu en fjölmargir tölvupóstar milli MS, Skattsins og fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytisins eru meðal máls­gagna í málinu.

Hægt er að lesa umfjöllun Viðskiptablaðsins frá því í fyrra hér.