Evrópusambandið (ESB) hefur sett Ísland á lista yfir viðskiptahindranir sem ríki utan sambandsins beita gagnvart útflutningsfyrirtækjum innan þess.
Tilefnið er tollflokkun pitsuosts með íblandaðri jurtaolíu, sem íslensk stjórnvöld ákváðu að tollflokka með háum tollum árið 2020. Ákvörðunin var tekin þvert á ráðleggingar Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) og í andstöðu við afstöðu belgískra tollayfirvalda og framkvæmdastjórnar ESB.
Málið hófst þegar Danól ehf., félagsmaður FA, hóf innflutning á pitsuosti með jurtaolíu frá Belgíu. Félag atvinnurekenda (FA) fagnar því að nýr fjármálaráðherra hyggst nú leiðrétta tollflokkunina til fyrra horfs með nýrri lagasetningu.
Upphaflega var osturinn flokkaður í 21. kafla tollskrár, sem er tollfrjáls. Hins vegar þrýstu Mjólkursamsalan og Bændasamtök Íslands á íslensk stjórnvöld að flokka vöruna í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla. Undir þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu breytti Skatturinn tollflokkuninni.
Ákvörðunin vakti mikla gagnrýni. Starfsmenn tollsviðs Skattsins sögðu sig frá málinu í mótmælaskyni og yfirtollvörður bar síðar fyrir dómi að fjármálaráðuneytið hefði gert embættinu að „fremja ólög“.
Í mars 2023 komst Alþjóðatollastofnunin (WCO) að þeirri niðurstöðu að osturinn ætti að vera tollfrjáls samkvæmt 21. kafla tollskrár. Íslensk stjórnvöld neituðu hins vegar að fara eftir því áliti og báru m.a. fyrir sig dóm í máli Danóls gegn ríkinu. Síðar kom í ljós að dómstólar höfðu ekki fengið aðgang að öllum gögnum, þar á meðal afstöðu ESB og WCO.
Eftir kvörtun belgísks útflytjanda til framkvæmdastjórnar ESB var Ísland sett á lista sambandsins yfir viðskiptahindranir. Í skýringum ESB segir að íslensk stjórnvöld hafi ranglega flokkað vöruna í tollflokk sem beri 30% verðtoll og 798 króna magntoll á hvert kíló.
Danól stefndi íslenska ríkinu í fyrra fyrir m. a. að hafa leynt mikilvægum gögnum fyrir Landsrétti er ríkið hafði betur gegn Danól í deilunum.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í fyrra sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, málið í heild sinni vera mikil vonbrigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í málinu en á endanum eru það neytendur sem tapa þegar ríkið fer svona fram.
„Það voru okkur mikil vonbrigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í þessu máli en sú leið sem eðlilegt er að fara þegar sterk rök og málefnalegar ástæður duga ekki til að snúa við, að okkar mati, röngum ákvörðunum hins opinbera, er að bera málið undir dómstóla,” sagði Andri Þór.
Umrædd gögn sem yfirvöld földu fyrir dómstólum tengdust meðal annars afstöðu Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um hvernig eigi að flokka vöruna en ESB og WCO eru sammála tollflokkun Danól á vörunni. Formleg afstaða ESB um framkvæmd íslenskra tollyfirvalda var send Skattinum, hinn 5. október 2021, um fimm mánuðum áður en dómur Landsréttar gekk.
Þess ber að geta að ákvörðun tollgæslustjóra að flytja vöruna milli tollflokka, þvert á skráningar ESB og WCO, gerði innflutning hennar til landsins ómögulegan þar sem álagning hárra gjalda leiddi til þess að enginn ávinningur var af því að selja hana.
Mun það óneitanlega vera ávinningur fyrir samkeppnisaðila Danól en fyrirtækið sakar Mjólkursamsöluna um að hafa þrýst á stjórnvöld að breyta tollskráningu en fjölmargir tölvupóstar milli MS, Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru meðal málsgagna í málinu.
Hægt er að lesa umfjöllun Viðskiptablaðsins frá því í fyrra hér.