Ísland á eins og undanfarin ár Evrópumetið í áfengissköttum, samkvæmt nýjum samanburði Spirits Europe, Evrópusamtaka áfengisframleiðenda, og eykur heldur forskot sitt á nágrannalöndin. Fjallað er um greininguna á vef Félags atvinnurekenda (FA).

Áfengisskattar hér á landi hækkuðu almennt um 7,7% um áramótin. Auk þess hækkaði áfengisskattur á áfengum drykkjum í fríhafnarverslunum um 169%, þar sem áfengisgjald í fríhafnarverslunum var hækkað úr 10% í 25% af almenna áfengisgjaldinu.

„Flest Evrópuríki héldu sköttum á áfengi óbreyttum um áramótin en af þeim tíu ríkjum sem breyttu sköttum hækkaði Ísland áfengisskatta langmest miðað við verðbólgu og var raunar eina ríkið sem hækkaði áfengisskatta umfram hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs.“

FA segir að áfengisskatturinn á sterku áfengi á Íslandi sé nú um sexfaldur á við Danmörku, 2,5-faldur á við áfengisskattinn í Svíþjóð og um fjórum sinnum hærri en í Bretlandi. Þá er skatturinn á léttvín rúmlega fimm sinnum hærri en í Danmörku og skatturinn á bjór meira en áttfaldur.

Bent er þó á að virðisaukaskattur á áfengi sé lægri á Íslandi en víðast hvar í Evrópu, eða 11%. Í öðrum Evrópuríkjum er algengt að hann sé í kringum 20%.

„Það breytir ekki því að eina tilvikið sem finna má um að samanlögð skattlagning á áfengum drykkjum sé meiri í evrópsku ríki en á Íslandi er skattur á bjór í Noregi. Áfengisskattar á aðrar tegundir áfengis í Noregi eru hins vegar langtum lægri en á Íslandi eins og sést á myndinni að ofan.“

Hækkanir aðeins meiri í Tyrklandi

Samanburður Spirits Europe tekur til 36 Evrópuríkja. Langflest ríki héldu áfengissköttum óbreyttum um áramótin þrátt fyrir að verðbólga hafi verið sögulega mikil í öllum löndum álfunnar árið 2022. Til samanburðar réttlætti Íslenska ríkisstjórnin hækkanir á áfengissköttum á Íslandi með vísan til verðbólgu.

Tíu ríki breyttu áfengissköttum. Króatía lækkaði þá lítið eitt en önnur hækkuðu. Næstmesta hækkunin var á Íslandi eða 7,7%. Tyrkland hækkaði mest, eða um 22,3%, en þar hefur verið óðaverðbólga.

„Með hækkunum sínum á áfengissköttum og öðrum krónutölusköttum stuðluðu stjórnvöld beinlínis að verðhækkunum í byrjun ársins,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

„Samanburðurinn sýnir enn og aftur að skattlagning á þessari neysluvöru er algjörlega út úr korti miðað við Evrópulönd, bæði sjálf upphæð skattsins og hækkun hans um áramótin. Stjórnvöld í öðrum Evrópuríkjum sem töldu nauðsynlegt að hækka áfengisskatta reyndu augljóslega að halda aftur af þeim hækkunum, ólíkt stjórnvöldum hér á landi.

Skattlagning á þessari einu neysluvöru er komin út fyrir öll skynsamleg mörk og bitnar harkalega á neytendum, innlendri áfengisframleiðslu og á ferðaþjónustunni. Einhvern tímann hlýtur að þurfa að segja stopp í þessari skattpíningu.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
© Aðsend mynd (AÐSEND)