Ísland situr í fjórða sæti á nýjum lista yfir árshækkun húsnæðisverðs hjá 56 löndum hjá á öðrum ársfjórðungi ráðgjafarfyrirtækinu Knight Frank. Ísland hoppar upp um þrjú sæti frá fyrsta ársfjórðungi en árshækkun húsnæðisverðs mældist 22,9% í júní síðastliðnum.
Sé hins vegar litið til raunhækkun húsnæðisverðs, sem tekur tillit til verðbólgu, er Ísland hins vegar í öðru sæti listans með 10,8% hækkun. Raunhækkun húsnæðisverðs var einungis meiri í Tyrklandi á þessu tímabili en þar mældist hún 45,9% og 160% að nafnverði.
Tólf mánaða hækkun húsnæðiverðs mældist að meðaltali 10,0% í 56 löndunum í úttekt ráðgjafafyrirtækisins. Raunhækkun húsnæðisverðs á ársgrunni mældist að meðaltali 1,6%.
„Við áttum von á áberandi niðursveiflu á öðrum ársfjórðungi, bæði hvað varðar vísitöluna í heild sinni og fjölda þjóða þar sem húsnæðisverð lækkaði á ársgrundvelli. Hvorugt raungerðist,“ segir í skýrslu Knight Frank.
Knight Frank gaf einnig nýlega út sambærilega úttekt sem náði til 150 borga. Reykjavík hoppaði upp um fimm sæti frá fyrsta fjórðungi, út 21. sæti í það sextánda en hækkun húsnæðisverðs mældist 22,1% í borginni. Ráðgjafarfyrirtækið styður sig við gögn frá Hagstofu Íslands.