Morgunverðarfundur í boði Íslensk-indverska viðskiptaráðsins (ÍIV) og Félags atvinnurekenda var haldinn í Skeifunni í morgun þar sem fríverslunarsamningur EFTA og Indlands var kynntur. Búið er að ljúka við gerð samningsins og er stefnt að undirritun á næstu dögum.

Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, opnaði fundinn og fluttu síðan Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Þórður Jónsson aðalsamningamaður ásamt B. Shyam, sendiherra Indlands, erindi.

Morgunverðarfundur í boði Íslensk-indverska viðskiptaráðsins (ÍIV) og Félags atvinnurekenda var haldinn í Skeifunni í morgun þar sem fríverslunarsamningur EFTA og Indlands var kynntur. Búið er að ljúka við gerð samningsins og er stefnt að undirritun á næstu dögum.

Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, opnaði fundinn og fluttu síðan Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Þórður Jónsson aðalsamningamaður ásamt B. Shyam, sendiherra Indlands, erindi.

Samningaviðræður Indlands og EFTA um fríverslunarsamning hafa staðið í 17 ár og hafa 20 lotur samningaviðræðna átt sér stað. Samningurinn markar því mikil tímamót í samskiptum ríkjanna.

Fríverslunarsamningurinn og afkastageta íslenska sendiráðsins í Nýju-Delí voru einnig til umræðu í Viðskiptamogganum þar sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra lagði til að íslenska sendiráðið myndi hefja afgreiðslu vegabréfsáritana. Í því samhengi sagði hann einnig að áhugavert væri að skoða bein flug milli landanna á komandi árum.

Millistéttin á Indlandi hefur einnig vaxið til muna á undanförnum árum. Hún samsvarar nú 31% af öllum fólksfjölda landsins og er búist við að sú tala verði um 40% árið 2030. Einkaneysla á Indlandi er þar að auki 60% af allri þjóðarframleiðslu landsins, miðað við 40% í Kína.

Í erindi sínu sagði Martin Eyjólfsson að samningurinn markaði einnig tímamót að því leytinu til að hann innihéldi ákveðin fjárfestingarmarkmið sem hafa hingað til ekki sést í slíkum fríverslunarsamningum.

Martin Eyjólfsson segir að Ísland sé komið með samkeppnisforskot yfir Bandaríkin og ríki innan ESB.
© Félag atvinnurekenda (Félag atvinnurekenda)

Í því ákvæði heita EFTA-ríkin því að auka fjárfestingu sína á Indlandi um 50 milljarða dali á tíu ára tímabili frá gildistöku samningsins. Ríkin skulu þá einnig stefna að því að skapa um milljón störf á Indlandi á innan við 15 árum.

„Ísland er nú komið með samkeppnisforskot til margra ára hjá landi sem er í stöðugum vexti. Á Indlandi eru til að mynda byggðir tveir menntaskólar á dag og 7-8 nýir flugvellir á hverju ári. Indland er líka fjölmennasta ríki veraldar og stærsta lýðræðisríki í heimi,“ sagði Martin og bætti við að lýðræði og frjáls viðskipti væru sitt hvor hliðin af sama peningnum.