Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði og doktorsrannsakandi Arcitc Initiative við Harvard Belfer Center, segir loftslagsbreytingar á norðurslóðum munu hafa afgerandi áhrif á umhverfi Íslands í framtíðinni.
Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að breytingarnar muni koma til með að hafa áhrif á öryggis-, loftslags- og efnahagsmál Íslands næstu 20-30 árin.
„Ísland þarf fleiri sérfræðinga í norðurslóðamálum. Þetta er áskorun sem við þurfum að taka alvarlega ef við ætlum að halda áfram að vera virkur og áhrifamikill þátttakandi í þróun mála á þessu mikilvæga svæði.“
Guðbjörg hefur verið virkur þátttakandi í málefnum norðurslóða undanfarin ár og hefur setið Arctic Circle Assembly-ráðstefnuna, sem haldin er í Hörpu, á hverju ári. Hún er einnig meðhöfundur rannsóknar, sem hún vann með Kristínu Ingvarsdóttur, lektor í japönsku, sem fjallar um norðurljósarannsóknir Japans og Kína á Íslandi.
Rannsóknin minnist meðal annars á norðurljósarannsóknarstöðina við Kárhól, sem hefur verið í brennidepli undanfarnar vikur í ljósi yfirlýsinga lögreglunnar um njósnir Kínverja og óljósa starfsemi við stöðina.
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Arctic Portal, sagði nýlega í samtali við Viðskiptablaðið að ásakanirnar væru út í hött og að verkefnið snerist einungis um samstarf norðurslóðamála sem íslensk stjórnvöld sóttust eftir við Kína.
Guðbjörg segir að rannsókn hennar og Kristínar leggi ekki mat á það hvort njósnir séu stundaðar eða hvort stöðin hafi verið byggð með slíka starfsemi í huga.
„Við erum að skoða stofnunarferlið, umfang verkefnisins og viðbrögðin hér á landi. Það sem okkur þótti áhugavert er að það hefur frá upphafi ríkt gífurleg tortryggni í garð verkefnisins, en á sama tíma er ekkert í íslenskum lögum sem leyfir rannsókn á starfseminni á grundvelli þjóðaröryggis. Í nýlegri fræðigrein okkar um efnið bendum við einnig á að ekki sé til staðar sérþekking hérlendis á öllum þeim sviðum sem fyrirhuguð starfsemi í stöðinni tekur til.“
Hún segir jafnframt að samstarf Íslands og Kína hafi stóraukist frá aldamótum sem hafi gjarnan verið báðum þjóðunum til bóta. Kína hafi til að mynda stutt Ísland í að fá björgunarpakka AGS eftir hrun og undirrituðu þjóðirnar tvær fríverslunarsamning árið 2013.
„Ísland og Kína hafa líka unnið saman að norðurslóðamálum en Ísland studdi meðal annars áheyrnaraðild Kína að Norðurskautsráðinu. Það hefur einnig verið samstarf á sviði jarðvarma og svo tókum við einnig á móti kínverska rannsóknarskipinu Ísdrekanum (XueLong) á Akureyri árið 2012.“
Hún segir að samskiptin hafi þó orðið fyrir áskorunum og þá sérstaklega eftir heimsóknir Mike Pence og Mike Pompeo til Íslands árið 2019. Þar hafi verið þrýst á íslensk stjórnvöld að takmarka tengsl við Kína.
„Það er erfitt að segja hvert framtíðin mun leiða Ísland í norðurslóðamálum. Það sem er hins vegar ljóst er að loftslagsbreytingar á norðurslóðum eru raunverulegar og að hlýnun á því svæði er 3-4 hraðari en annars staðar. Þetta kemur okkur við en það sem Ísland skortir núna er mannauður sem sérhæfir sig í þessum málum.“