Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf. var samþykkt á Alþingi rétt í þessu. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sagði um helgina að stefnt væri að næsta sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka fari fram á næstu vikum.
Breytingar á lögunum fólu í sér að bætt var við þriðju tilboðsbókinni, tilboðsbók C, við þær tvær sem fyrirhugaðar voru í hinu áformaða almennu hlutafjárútboði.
Tilboðsbók C er skilyrt við stóra eftirlitsskylda fagfjárfesta en í henni er tekið við tilboðum fyrir að lágmarki 300 milljónir króna í kjölfar markaðsþreifinga fyrir útboð. Þessir aðilar verða að uppfylla það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra í stýringu sé jafnvirði 70 milljarða króna eða hærra.
Fjármálaráðuneytið auglýsti í síðustu viku eftir einum eða fleiri söluaðilum vegna fyrirhugaðs útboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
Barclays, Citi og Kvika banki hafa nú þegar verið ráðin sem umsjónaraðilar með væntanlegu útboði, og hefur fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans verið ráðin sem sjálfstæður fjármálaráðgjafi ríkisins.