Mikið var fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar á Íslandsbankasölunni í mars síðastliðnum í síðustu viku. Fyrir mörgum stóðu upp úr vankantar við Excel-skjalið sem hélt utan um tilboðsbókina. Um helgina setti Lex, hinn frægi skoðanadálkur breska dagblaðsins Financial Times, Íslandsbankasöluna í samhengi við aðra fræga Excel-drauga. Þá fjallaði Bloomberg einnig um Excel-skjalið í Íslandsbankasölunni í síðustu viku.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að fjöldi færslna hafi í tilboðsbókinni ekki verið færður inn á réttu formi heldur með erlendri kommusetningu eða fjárhæðum skilgreindum sem texta „og leiddi það til þess að Excel–töflureiknirinn nam þau ekki sem tölulegar upplýsingar“.
Lex segir að ágreiningur sé um áhrif Excel-villunnar en að hún gæti hafa kostað allt að 16 milljónir dala, eða sem nemur 2,3 milljarða króna. Sú fjárhæð miðar við mismuninn á söluandvirðið miðað við 117 krónur annars vegar og 122 krónur hins vegar. Bankasýslan og Íslandsbanki lýstu atburðarrásinni þannig að þegar hefði verið búið að leiðrétta villurnar í tilboðsbókinni þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin.
„London hvalurinn“ efstur á listanum
Rannsóknir gefa til kynna að níu af hverjum tíu Excel-skjölum innihaldi villur. Samtökin EuSpRIG (The European Spreadsheet Risks Interest Group) hafa tekið saman lista yfir frægar Excel-villur.
Efst á listanum er 6,2 milljarða dala tap, eða sem nemur 900 milljörðum króna á gengi dagsins, hjá JP Morgan Chase árið 2012 vegna afleiðuviðskipta miðlara bankans sem gekk undir nafninu „London hvalurinn“. Hann studdist við skjal sem misreiknaði hættuhlutfall og fylgni ásamt því að hann þurfti að klippa og líma ákveðin gögn.
Auk hinna frægu Excel-villna sem Lex tekur saman í meðfylgjandi grafi bætti Viðskiptablaðið við Excel-draugi sem kostaði Novator Partners, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, 1,6 milljarða króna, þar sem félagið var krafið um bætur eftir að það bauð óvart sjötíu milljarða í stað sjö í uppbyggingu fjarskiptanets í Kólumbíu.
Lex bendir einnig á fræðigrein Harvard prófessorana Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff frá árinu 2010 sem fjallar um tengsl ríkisskulda og hagvaxtar varð hvað þekktust fyrir einföld Excel-mistök: fimm lönd voru undanskilin í meðaltalsútreikningi sem ýkti áhrif skulda á hagvöxt.
Í Covid-faraldrinum kom upp neyðarlegt atvik fyrir bresku heilbrigðisstofnunina Public Health England þegar niðurstöður úr 16 þúsund prófum duttu út úr gagnagrunninum. Mistökin skýrðust af því að starfsmaður notaði skráarsniðið XLS, sem hefur að hámarki 64 þúsund raðir.