Útboð ríkisins á hlut sínum Íslandsbanka hefur verið slegið á frest. Þetta var tilkynnt á vef stjórnarráðsins rétt í þessu. Til stóð að ljúka útboðinu fyrir áramót en fjárlög næsta árs gera ráð fyrir söluhagnaði af útboðinu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nemur kostnaður við undirbúning útboðsins tugum milljóna króna og fyrirséð að efna verður slíks kostnaðar að nýju ef útboðið hefði ekki klárast fyrir lok þessa ársfjórðungs.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir:

„Ákveðið hefur verið að fresta sölu á útistandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Einhugur var innan ráðherranefndar um ríkisfjármál, þar sem forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja, um að fresta sölunni, að fenginni ráðgjöf frá umsjónaraðilum útboðsins. Er þar horft til markaðsaðstæðna og þess að skammt er til alþingiskosninga. Mikilvægt er að hámarka líkur á að útboðið heppnist vel og að næg þátttaka fáist, meðal annars frá almenningi.

Undirbúningur sölunnar hefur gengið vel og er kominn langt á veg í samstarfi við ráðgjafa ríkisins, Kviku, Barclays og Citi, fjármálaráðgjafann Landsbankann, auk lögfræðiráðgjafa. Mun sú vinna nýtast þegar sölunni verður fram haldið, jafnvel þó það verði ekki fyrr en á nýju ári.

Samkvæmt lögum nr. 80/2024 hefur fjármálaráðherra heimild til að ráðstafa eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum. Í lögunum er gert ráð fyrir einu eða fleiri útboðum. Ríkissjóður hefur fengið 108 milljarða króna í sinn hlut í fyrri útboðum Íslandsbanka og á enn 42,5% hlut í bankanum. Horft hafði verið til þess að u.þ.b. helmingurinn af þessum hlut yrði seldur á þessu ári og eftirstandandi hlutur á næsta ári, eftir því sem markaðsaðstæður leyfðu."