Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) veitti Íslandsbanka í dag heimild fyrir allt að 15 milljarða króna endurkaupum eigin hluta að markaðsvirði og til lækkunar hlutafjár. Greint er frá þessu í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.

Bankinn segist ætla að nýta heimildina til endurkaupa í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum, til dæmis með útboðsfyrirkomulagi.

Bankinn hyggst tilkynna um tímasetningu og framkvæmd endurkaupa samkvæmt framangreindri heimild þegar ákvörðun um þau hefur verið tekin.

Íslandsbanki hafði fyrir útistandandi heimild til endurkaupa á eigin hlutum að fjárhæð um 2 milljarða króna. Bankinn getur því samtals keypt eigin bréf fyrir 17 milljarða króna, eða um 7,4% af markaðsvirði hans miðað við dagslokagengi hans í dag.

Styðji við gengi bankans

Alexander Hálmarsson, stofnandi greiningarfyrirtækisins Akkurs, segir á vefsíðu fyrirtækisins að þessi tíðindi muni að öllum líkindum styðja við gengi Íslandsbanka á næstu misserum.

Hann bendir á að Íslandsbanki sé með arðgreiðslustefnu um að greiða út sem nemur 50% af hagnaði í arð.

Samkvæmt spá Akkurs verður hagnaður Íslandsbanka á árinu 2024 um 23,8 milljarðar króna. Miðað við það gæti arðgreiðsla fyrir árið 2024 numið um 12 milljörðum króna.

Samtals gæti því arður og endurkaup eigin bréfa hjá Íslandsbanka numið um 29 milljörðum króna eða um 12,6% af núverandi markaðsvirði bankans.