Íslandsbanki hefur veitt Skógarböðunum framkvæmdalán til fjármögnunar á 120 herbergja hóteli með heilsulind, veitingaaðstöðu og ráðstefnusal, að því er kemur fram í tilkynningu á vef bankans.

Jafnframt fjármagnaði Íslandsbanki framkvæmdir við stækkun á laugum Skógarbaðanna sem áætlað er að opni í haust.

Gert er ráð fyrir að verklok vegna hóteluppbyggingarinnar verði á árinu 2027 og mun þá fjöldi ársstarfa við Skógarböðin vera orðin um 120 talsins.

„Rekstur Skógarbaðanna hefur gengið vel frá opnun og er tilkoma þeirra mikið framfaraskref fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

„Allir hluthafar koma frá svæðinu hér á Akureyri og hafa sterka tengingu við það og vilja stuðla að frekari uppbyggingu þess. Ekki er áætlað að greiða út arð úr rekstri Skógarbaða næstu árin heldur á arðsemi rekstursins að renna inn í nýtt hótelverkefni.“

Félagið segir aðsókn heimafólks hafa verið ein helsta forsenda velgengni baðanna en margir hafi keypt vetrarkort í böðin. Nú sé í fyrsta skiptið boðið upp á árskort í böðin en talsvert hafi verið óskað eftir slíku af heimafólki.

Skógarböðin í Vaðlaheiði gegnt Akureyri opnuðu í maí 2022. Finnur Aðalbjörnsson, sem stofnaði félagið ásamt eiginkonu sinni Sigríði Maríu Hammer, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2023 að með uppbyggingu hótelsins sé m.a. horft til þess að fjölga gistirýmum á Norðurlandi. Það gæti t.d. stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflug til Akureyrar.

Þá væri stefnt að því að lengja laugina um rúma 80 metra þannig að hún nái alveg upp að hótelinu og hótelgestir geti þá stokkið beint út í.

Skógarböðin undirrituðu í ársbyrjun 2024 viljayfirlýsingu við Íslandshótel, stærstu hótelkeðju landsins, um uppbyggingu og rekstur hótelsins. Í ágúst 2024 slitu félögin samstarfinu. Forstjóri Íslandshótela, Davíð Torfi Ólafson, sagði of mikið bera í milli hvað hugmyndir um framhald verkefnisins varðar.