Stjórn Íslandsbanka hefur ákveðið að hafna boði Arion banka um samrunaviðræður. Stjórnin telur ólíklegt að samruninn yrði samþykktur af Samkeppniseftirlitinu nema gegn ströngum og afar íþyngjandi skilyrðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar.

Stjórn Arion banka lýsti opinberlega yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna félaganna þann 14. febrúar síðastliðinn. Arion birti samhliða ítarlegt bréf Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion, og Paul Horner, stjórnarformanns banks, til forsvarsmanna Íslandsbanka.

Stjórn Íslandsbanka, sem segist hafa fjallað vandlega um málið, tekur undir ýmis sjónarmið í bréfi Arion um mögulegt hagræði sem gæti hlotist af samrunum á innlendum bankamarkaði og að lækka megi kostnað með auknu samstarfi um innviði bankaþjónustu, lægri sköttum og hóflegum eiginfjárkröfum.

„Hins vegar er það mat stjórnar Íslandsbanka að mjög ólíklegt sé að sá samruni sem stjórn Arion leggur til fáist samþykktur af Samkeppniseftirlitinu við núverandi aðstæður nema gegn ströngum og afar íþyngjandi skilyrðum.“

Horft til raunhæfra vaxtartækifæra

Í tilkynningunni segir að Íslandsbanki hafi markað sér mjög skýra stefnu þar sem áhersla er lögð á arðsemi, framsækni, þjónustu og upplifun viðskiptavina.

„Bankinn hefur horft til raunhæfra innri og ytri vaxtartækifæra sem styðja við stefnu bankans. Hjá Íslandsbanka er stöðugt unnið að aukinni skilvirkni og hagræðingu, sem mun skila sér til viðskiptavina og hluthafa bankans. Eigið fé bankans er töluvert umfram markmið, sem gefur tækifæri til arðbærs vaxtar.

Enn fremur telur stjórn bankans það vera mikið hagsmunamál fyrir alla hluthafa Íslandsbanka að söluferli á eignarhlut ríkisins í bankanum gangi greiðlega fyrir sig.“

Íslandsbanki segist ætla að leitast eftir samtali við stjórnvöld, Seðlabanka Íslands og aðra hagsmunaaðila um það hvernig auka megi samstarf um innviði fjármálakerfisins í því skyni að ná fram aukinni hagræðingu til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hluthafa og á sama tíma efla samkeppni á fjármálamarkaði.