Íslandsbanki hagnaðist um 24,2 milljarða árið 2024 samanborið við 24,6 milljarða árið áður. Arðsemi eigin fjár hjá Íslandsbanka var 10,9% samanborið við 11,3% árið 2023. Bankinn birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Greiða út 12 milljarða

Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,1 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans í mars. Það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.

„Áform um bestun eiginfjársamsetningar bankans standa enn, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. Líkt og áður hefur komið fram getur slíkt falið í sér bæði innri og ytri vöxt, sem og greiðslu til hluthafa, hvort heldur sem er í formi sérstakrar arðgreiðslu og/eða með endurkaupum á eigin hlutum,“ segir í kauphallartilkynningu bankans.

Rekstrartekjur drógust saman um hálft prósent

Rekstrartekjur bankans drógust saman um 0,5% milli ára og námu 62,9 milljörðum króna. Hreinar vaxtatekjur Íslandsbanka námu 47,3 milljörðum króna, sem er samdráttur um 2,8% á milli ára.

Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 1,2% á milli ára, og námu 13,1 milljarði króna árið 2024.

Aðrar rekstrartekjur námu 2.282 milljónum króna árið 2024, samanborið við 570 milljónir króna árið 2023. Bankinn rekur þessa aukningu að megninu til virðisaukningar á lóðinni Kirkjusandi 2, þar sem bankinn hafði áður höfuðstöðvar sínar, auk hlutdeildar í hagnaði Norðurturnsins hf., tengt virðisbreytingum fjárfestingareignar.

Kostnaðarhlutfall bankans, leiðrétt fyrir stjórnvaldssektum, hækkaði úr 40,6% árið 2023 í 43,9% fyrir árið 2024.

„Fram undan eru spennandi tímar við innleiðingu nýrrar stefnu þar sem markmiðið er að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og vera hreyfiafl til góðra verka. Áfram er mikil áhersla á að efla fjárhaglega heilsu og mun bankinn halda áfram öflugu fræðslustarfi. Samstarf Íslandsbanka og VÍS opnar á ný tækifæri í þjónustu við okkar viðskiptavini og við hlökkum til að móta það samstarf og kynna það nánar á komandi vikum og mánuðum,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.