Íslandsbanki skilaði 24,5 milljarða króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 23,7 milljarða hagnað árið 2021. Arðsemi eigin fjár var 11,8% á ársgrundvelli samanborið við 12,3% fyrir árið 2021. Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,3 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans. Bankinn birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Hreinar vaxtatekjur jukust um 26,7% frá fyrra ári og námu 43 milljörðum. Hreinar þóknanatekjur jukust um 9,4% og nám 14 milljörðum. Aðrar hreinar rekstrartekjur drógust saman um þrjá milljarða sem má einkum rekja til þess að hreinar fjármunatekjur voru neikvæðar um 1,3 milljarða í fyrra en jákvæðar um 2,5 milljarða árið 2021.
Rekstrartekjur bankans jukust alls um 14% á milli ára og námu 57,3 milljörðum. Rekstrargjöld jukust um 1,5% á milli ára og námu 25,9 milljörðum. Kostnaðarhlutfall Íslandsbanka lækkaði úr 46,2% í 42,1% á milli ára.
Draga úr fyrirhuguðum endurkaupum
Heildareignir Íslandsbanka voru bókfærðar á 1.566 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eigið fé bankans nam nærri 219 milljörðum og eiginfjárhlutfall bankans var 22,2%.
Bent er á að eiginfjárhlutföllin geri ráð fyrir áður áætluðum endurkaupum á eigin bréfum að fjárhæð 15 milljarðar króna. Íslandsbanki segist áforma að bæta 10 af þessum 15 milljörðum aftur inn í eiginfjárauka bankans, sem leiðir til 1 prósentustigs hækkunar á eiginfjárhlutföllum bankans. Því hyggst bankinn hefja endurkaup á eigin hlutabréfum að fjárhæð 5 milljarðar.
„Bankinn hefur séð arðbæran vöxt útlána til viðskiptavina á árinu 2022 sem var umfram upphaflegar áætlanir og sér frekari tækifæri til að stækka útlánasafnið. Þá hefur Seðlabanki Íslands, í ljósi alþjóðlegrar efnahagsóvissu og óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum, beðið íslensku bankana um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að úthlutun eigin fjár á næstunni,“ segir í afkomutilkynningunni.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:
„Við erum ánægð með afkomu fjórða ársfjórðungs og ársins 2022 í heild. Við tókum þátt í spennandi verkefnum með viðskiptavinum okkar og náðum að vera hreyfiafl til góðra verka með þeim.
Hagnaður fjórða ársfjórðungs nam 6,0 ma. kr. og hagnaður nam 24,5 ma. kr. fyrir árið 2022 og arðsemi var 11,8% á árinu 2022. Tekjur bankans á árinu hækkuðu um rúm 14% frá fyrra ári og þar af hækkuðu hreinar vaxtatekjur um tæp 27% milli ára. Kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild var 42,1% sem er betra en markmið bankans, 45%.Aukning í útlánum kom að jöfnu frá einstaklingum og fyrirtækjum, og nam um 9,2% á ársgrundvelli. Innlán frá viðskiptavinum jukust einnig um 6,2% og styrkti enn frekar megin fjármögnunarstoð bankans.
Aðstæður á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum voru krefjandi mestan hluta ársins. Þrátt fyrir það átti bankinn vel heppnaðar útgáfur á árinu og náði um leið að auka fjölbreytileika í fjármögnun sinni.
Það var ánægjulegt að á árinu réðumst við í fyrstu útgáfu bankans á sértryggðum skuldabréfum í evrum og fyrstu útgáfu bankans á víkjandi skuldabréfum í íslenskum krónum.
Við höfum hafið stefnumótunarvinnu með það að markmiði að skilgreina stefnuverkefni bankans til næstu ára. Fjögur ár eru liðin síðan slík stefnumótun fór síðast fram og höfum við náð miklum árangri í þeim verkefnum sem við settum okkur. Að þessu sinni höfum við fengið ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að leiða stefnumótunarvinnuna.
Við erum afar ánægð með góðan árangur allra viðskiptaeininga sem eru að skila sterkri arðsemi. Við erum leiðandi meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja og með hæstu markaðshlutdeild hjá 300 stærstu fyrirtækjum landsins. Þessi árangur skiptir okkur gríðarlega miklu máli þar sem þessi fyrirtæki eru afar mikilvægur hluti íslensks efnahagslífs og hafa veitt kraftmikla viðspyrnu í efnahagslegu umróti síðustu missera.
Á aðalfundi bankans í mars 2023 munum við óska eftir samþykki á arðgreiðslu í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Bankinn mun einnig hefja endurkaup á eigin bréfum. Við erum spennt fyrir árinu 2023 og tækifærunum sem framundan eru með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum.“