Íslandsbanki hagnaðist um 5,9 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 5,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 11,6% „sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila,“ segir í tilkynningu bankans. Bankinn segir góða afkomu megi rekja til sterkrar tekjumyndunar, aðhaldi í rekstri og jákvæðri virðisbreytingu útlána.
„Við Íslandsbankafólk getum svo sannarlega verið ánægð með uppgjör annars ársfjórðungs þar sem hagnaður nam 5,9 milljörðum króna og var arðsemi 11,7% sem er yfir okkar fjárhagsmarkmiðum. Við sáum sterkan vöxt í tekjum bæði hvað varðar vaxta- og þóknanatekjur eða 21% á milli ára. Á sama tíma náðist raunlækkun kostnaðar um 5,9%. Kostnaðarhlutfall var 42,7% á tímabilinu sem er jafnframt umfram fjárhagsmarkmið bankans,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Íslandsbanki hefur fært upp leiðbeinandi tölu fyrir arðsemi yfir 10% en áður var hún á bilinu 8-10%. Jafnframt gerir bankinn ráð fyrir að kostnaðarhlutfall verði á bilinu 44-47% , en áður spáði hann fyrir um 45-50%.
Hreinar vaxtatekjur bankans námu 10,3 milljörðum á fjórðungnum og jukust um 21,8% frá öðrum fjórðungi 2021. Vaxtamunur hækkaði úr 2,4% 2,9% á milli ára. „Hækkunin á milli ára skýrist af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans.“
Hreinar þóknanatekjur jukust um 18,1% á milli ára og námu samtals 3,4 milljörðum. „Auknar tekjur í greiðslumiðlun, fjárfestingarbanka, verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun og vegna útlána og ábyrgða leiddu hækkunina.“ Þá námu hreinar fjármunatekjur 208 milljónum á síðasta ársfjórðungi, samanborið við 619 milljónir fyrir árið.
Kostnaðarhlutfall bankans á öðrum fjórðungi lækkaði á milli ára úr 49,9% í 42,7%. Rekstrargjöld bankans námu 6,4 milljörðum á fjórðungnum.
Virðisrýrnun var jákvæð um 575 milljónir á öðrum fjórðungi sem bankinn rekur til niðurstöðu dómsmáls varðandi lán Héðinsreitar ehf. sem áður var að fullu afskrifað og batnandi útliti í ferðaþjónustu.
Útlán til viðskiptavina jukust um 4,1% á milli ára eða um 45,8 milljarða á fjórðungnum og voru 1.154 milljarðar í lok júní 2022. „Aukninguna má rekja til allra viðskiptaeininga, en þó mest til aukningar húsnæðislána.“
Eigið fé bankans nam 203,7 milljörðum króna í lok júní. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,5% samanborið við 25,3% í árslok 2021.
