Gengi bréfa Íslandsbanka lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í dag, um 3,12% í 550 milljón króna veltu. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,33% og heildarvelta á markaði nam 2,5 milljörðum króna.
Hin svokallaða „Íslandsbankaskýrsla“ Ríkisendurskoðunar, sem fjallar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka, var gerð opinber í dag. Bankinn var seldur á genginu 117 krónur á hlut, en eftir viðskipti dagsins stendur gengi bréfa bankans í 124,2 krónum.
Tryggingafélagið VÍS lækkaði mest allra félaga, um 2,4% í 125 milljóna veltu. Þá lækkaði Reginn um tæp 2% í óverulegum viðskiptum. Þá lækkaði Arion banki, hinn stóri bankinn á markaði, um 1,8% í 512 milljón króna veltu.
Marel hækkaði mest allra félaga, um 2% í 350 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Icelandair um 0,5% í 350 milljóna veltu.
Gengi Play 25% undir útboðsgengi
Á First North lækkaði flugfélagið Play um tæp 3,5% í tveggja milljóna króna veltu. Gengi Play stendur nú í 13,45 krónum og hefur aldrei verið lægra frá skráningu. Gengið er jafnframt 25% undir 18 króna útboðsgenginu í frumútboði flugfélagsins í júní 2021.
Hlutabréfaverð Play hefur nú fallið um meira en helming frá því að það náði hæstu hæðum í 29,2 krónum í október 2021.