Dagslokagengi Íslandsbanka nam 116 krónum í Kauphöllinni í dag en gengið var lengi vel í 117 krónum sem samsvarar útboðsgengi í útboði bankasýslunnar 22. mars 2022. Útboðsgengið væri þó 135 krónur í dag á verðlagi dagsins í dag.
Hlutabréf í Íslandsbanka fór í fyrsta sinn undir útboðsgengið eftir útboðið 24. janúar 2023 er dagslokagengi bankans nam 116,6 krónur. Gengi bankans hefur ekki verið yfir útboðsgenginu síðan í lok júlí í fyrra er gengið fór yfir 122 krónur en tók síðan að dala er leið á árið.
Gengið fór lægst í 100 krónur í fyrra en gengi bankans hefur hækkað um 9% síðastliðinn mánuð og 4,5% á fyrstu tveimur viðskiptadögum ársins.
Hlutabréf í málmleitarfélaginu Amaroq minerals leiddi hækkanir í dag er gengið fór upp um 4% í 232 milljón króna viðskiptum. Amaroq leiddi hækkanir á liðnu ári er gengið fór upp um 53% í fyrra.
Eftir lokun markaða í gærkvöldi var tilkynnt að Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri félagsins, hefði keypt samtals 59,800 hluti í félaginu milli jóla og nýárs.
Alvotech hækkaði um 2,56% í 140 milljón króna viðskiptum en fyrirtækið tilkynnti í nótt um jákvæða niðurstöðu rannsóknar á AVT06, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea (aflibercept). Gengi lyfjafyrirtækisins hefur hækkað um 21% síðastliðinn mánuð.
Fjárfestingafélagið SKEL leiddi lækkanir á markaði er gengið fór niður um 2%. SKEL gekk nýverið frá kaupum á öllu hlutafé í eignarhaldsfélaginu Bjarma ehf. en það félag hefur haldið utan um 5% eignarhlut í matvörukeðjunni Samkaup hf.