Stjórn Íslandsbanka samþykkti í dag að hefja samrunaviðræður við Kviku banka um mögulegan samruna félaganna tveggja, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Búist er við að viðræðurnar fari fram á næstu vikum.
„Stjórn bankans telur að í samruna félaganna geti falist sóknar- og hagræðingartækifæri og að viðskiptavinir sameinaðs félags muni geta notið þess í breiðara vöruframboði, aukinni þjónustu og lægri kostnaði,“ segir stjórn Íslandsbanka.
Hún bendir á að með sameiningu myndi efnahagsreikningur Íslandsbanka stækka um tæplega 20%. Auk þess myndi tryggingarekstur Kviku „auka fjölbreytni í tekjugrunni bankans“.
„Bankarnir tveir starfa á mikilvægum mörkuðum og leggur Íslandsbanki áherslu á að þeir viðhaldi samkeppnislegu sjálfstæði sínu á meðan ferlinu stendur. Leggur bankinn jafnframt áherslu á opin og hreinskiptin samskipti við viðeigandi eftirlitsaðila í ferlinu.“
Stjórn Kviku banka óskaði fyrir viku síðan eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður milli bankanna tveggja.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að sameinað félag gæti boðið upp á aukna og betri þjónustu til viðskiptavina í ljósi þess að Íslandsbanki hafi margt sem Kviku skorti og öfugt. Hann telur að sameinað félag yrði mjög áhugaverður fjárfestingarkostur.
„Það myndi gagnast öllu samfélaginu í ljósi þess hversu stóran hlut ríkið á í Íslandsbanka.“
Hlutabréf Íslandsbanka hafa hækkað um 9,9% og Kviku um 11,6% frá því að tilkynnt var um beiðni stjórnar Kviku um samrunaviðræður. Samanlagt markaðsvirði Íslandsbanka og Kviku banka er nú um 356 milljarðar króna, þar af er markaðsvirði Íslandsbanka um 257 milljarðar og Kviku um 99 milljarðar.