Íslandsbanki greiðir 1.160 milljónir króna í sektargreiðslu og gengst við að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum laga um markaði með fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtækja í tengslum við söluferlið í lokuðu útboði á 22,5% hlut í bankanum sem fram fór í mars í fyrra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Um er að ræða hæstu sekt sem lögð hefur verið á íslenskt fjármálafyrirtæki.

Í byrjun árs var tilkynnt um að bankinn hafi lýst yfir vilja til að ljúka málinu með samkomulagi um sátt í kjölfar þess að hafa móttekið frummat fjármálaeftirlits Seðlabankans vegna framkvæmdar bankans á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.

Í tilkynningu Íslandsbanka segir að í sáttinni fallist bankinn á það mat fjármálaeftirlitsins að viðeigandi lagakröfum og innri reglum bankans um veitingu fjárfestingarþjónustu hafi ekki verið fylgt í öllum tilvikum við undirbúning og framkvæmd útboðsins, einkum hvað varði hljóðritanir símtala, upplýsingagjöf til viðskiptavina, flokkun fjárfesta og ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum s.s. aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna.

Þá hafi innleiðing stjórnarhátta og innra eftirlits ekki verið fullnægjandi og skort hafi áhættumiðað eftirlit með hljóðritunum. Jafnframt telji fjármálaeftirlitið að bankinn hefði átt að gera sérstakt áhættumat í tengslum við útboðið. Loks hafi bankinn við framkvæmd útboðsins ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum. Það sé niðurstaða fjármálaeftirlitsins að brot bankans samkvæmt framangreindu hafi verið alvarleg.

Auk sektarinnar skuldbindur bankinn sig til þess að gera nánar tilgreindar úrbætur og fela innri endurskoðanda og stjórn að staðfesta hvernig þeim er mætt með fullnægjandi hætti fyrir 1. nóvember 2023.

Þá segir í fréttatilkynningu að á öðrum ársfjórðungi 2023 gjaldfæri Íslandsbanki 860 milljónir króna vegna þessa atburðar en bankinn hafi gjaldfært 300 milljónir króna vegna sama atburðar í ársuppgjöri 2022. Áætlað sé að afkoma Íslandsbanka fyrir annan ársfjórðung verði á bilinu 5,8-6,5 milljarðar króna, sem jafngildi arðsemi eigin fjár á bilinu 10,7-12,1%.

Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka:

„Stjórn bankans telur mikilvægt að málinu hafi verið lokið með sátt. Niðurstaðan er í meginatriðum í samræmi við áfangaskýrslu innri endurskoðunar bankans sem stjórn átti frumkvæði að og send var fjármálaeftirlitinu í byrjun maí 2022. Stjórn bankans leggur áherslu á að ljúka viðeigandi úrbótum innan tilskilins tíma. Bankinn hefur þegar gert breytingar á reglum og verklagi s.s. um viðskipti starfsmanna og hljóðritanir. Ljóst er að bankinn dregur mikinn lærdóm af þessu verkefni.“