Annars vegar eru gerðar smávægilegar breytingar á lágmarkstíma auglýsingar útboðsins og hins vegar er þriðju tilboðsbókinni bætt við þær tvær sem fyrirhugaðar voru.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að með breytingunum sé þátttaka allra fjárfestahópa tryggð. Þá segir að fyrirhugað sé að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, um 42,5% hlutabréfa bankans, á næstu misserum.
Uppfært fyrirkomulag útboðs tryggi einstaklingum áfram lægsta verð og forgang á úthlutun, hafi gagnsæja verðmyndun í B-bók sem einnig gildi fyrir C-bók, veiti stórum eftirlitsskyldum fagfjárfestum hefðbundnara úthlutunarferli í C-bók og er talið geta aukið selt magn.
Þrjár tilboðsbækur
Tilboðsbók A: Aðeins einstaklingum er heimilt að gera tilboð í tilboðsbók A, fyrir allt að 20 m.kr. Gengið í tilboðsbók A verður á föstu verði. Verð miðast við meðalverð hlutabréfa í Íslandsbanka hf. síðustu 15 daga fyrir birtingu útboðslýsingar, eða síðasta dagslokagengi, með allt að 5% afslætti. Úthlutanir í A-bók verða ekki skertar vegna hinna tilboðsbókanna, en komi til skerðingar, verður það gert hlutfallslega. Þannig verður almenningi tryggt lægsta verð og forgang við úthlutun.
Tilboðsbók B: Lögaðilar og almenningur geta boðið í hluti í bankanum í tilboðsbók B. Þar er lágmarkskaupverð 2 m.kr. Úthlutun er á grundvelli verðs en verðmyndun fer fram með jafnvægisútboði samkvæmt aðferðafræði sem jafnan er kennd við Holland. Verðið má þó aldrei verða lægra en verð A-bókarinnar. Þar sem úthlutun verður á grundvelli verðs en verðið mun þó aldrei fara niður fyrir fast verð A-bókarinnar. Úthlutanir til tilboðsbókar B verða ekki skertar vegna tilboðsbókar C.
Tilboðsbók C: Stórir eftirlitsskyldir fagfjárfestar geta gert tilboð í tilboðsbók C. Þar er tekið við tilboðum fyrir að lágmarki 300 m.kr., í kjölfar markaðsþreifinga fyrir útboð. Markaðsþreifingar miða að því að fá stóra eftirsóknarverða fagfjárfesta að borðinu til að tryggja sem mesta eftirspurn í útboðinu. Þessir aðilar verða að uppfylla það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra í stýringu sé jafnvirði 70 milljarða króna eða hærra. Verð í tilboðsbók C er hið sama og myndast í tilboðsbók B.