Greining Íslandsbanka spáir því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir um 0,5 prósentustig á miðvikudaginn næsta, 20 nóvember. Bankinn segir einnig talsverðar líkur á 0,25 prósenta vaxtalækkun.
„Trúlega stendur valið milli þess að lækka vextina um 0,25 eða 0,5 prósentur og eru raunar talsverðar líkur að okkar mati á því að 0,25 prósentur verði fyrir valinu þótt okkur þyki 0,5 prósenturnar líklegri niðurstaða,“ segir í grein Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, á vef bankans.
„Þar horfum við ekki síst til nýlegra orða [peningastefnunefndarinnar] um þörf á „hæfilegu aðhaldsstigi“ peningamála enn um sinn.“
Greiningardeildin segir að óvissu vegna nýlegra stjórnarslita og yfirvofandi kosninga ásamt yfirstandandi verkföllum hjá allstórum hópi opinbers starfsfólks sé þó líkleg til að gera nefndina heldur varkárari en ella við vaxtaákvörðunina nú.
„Að auki þarf nefndin að vega saman annars vegar nýlega hjöðnun verðbólgu, kólnandi húsnæðismarkað og batnandi verðbólguhorfur en hins vegar seiglu í einkaneyslu, allsterkan vinnumarkað og nokkuð sveiflukenndar verðbólguvæntingar.“
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentstugi þann 2. október síðastliðinn, úr 9,25% í 9,0%.