Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spá því að verðbólga muni hjaðna úr 6,0% í 5,7% milli ágúst og september. Bankarnir spá því báðir að ársverðbólgan muni hjaðna áfram næstu mánuði og verða í kringum 5% í árslok.

Bráðabirgðaspá Greiningar Íslandsbanka gerir ráð fyrir að ársverðbólga muni mælast 5,3% í október og 5,1% í nóvember og desember.

Skammtímaspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólga verði 5,3% í október og 4,9% í nóvember og desember.

Greiningardeildir beggja banka spá því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um tæplega 0,1% í september frá fyrri mánuði.

Greining Íslandsbanka spáir því að flugfargjöld muni lækka um 11,1% í september sem muni hafa 0,19% áhrif á VNV.

Jafnframt telur Bankinn telur að áhrif útsöluloka muni teygja sig af meiri krafti inn í september þar sem þau voru nokkuð mild í síðasta mánuði. Spáin gerir ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um 5,2% milli mánaða sem hefði 0,18% áhrif á VNV.

Í hagsjá Landsbankans segir að húsnæðisliðurinn og útsölulok á fötum og skóm muni líklega hafa mest áhrif til hækkunar á VNV. Til lækkunar á vísitölunni veðri það helst matarkarfan, flugfargjöld til útlanda og bensín. Auk þess muni gjaldfrjálsar skólamáltíðir valda því að liðurinn hótel og veitingastaðir lækki nokkuð.