Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,75% við næstu vaxtaákvörðun á miðvikudaginn í næstu viku, 21. maí. Bankinn segir þó einnig talsverðar líkur á 0,25 prósentu lækkun.

„Óhagstæðari þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga undanfarið en nefndin vonaðist til ásamt merkjum um áframhaldandi seiglu í eftirspurn þrátt fyrir háa raunvexti vegur þar trúlega þyngra en hjaðnandi húsnæðisverðbólga og merki um minnkandi spennu á vinnumarkaði,“ segir í grein Jón Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, á vef bankans.

Bankinn telur „afar ólíklegt“ að nefndin stígi stærra vaxtalækkunarskref en 25 punkta lækkun en með því væri hún að breyta verulega frá þeirri varfærnu stefnu sem hún hefur markað undanfarið í stjórnun peningamála.

Þess má geta að 65% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins, sem greint er frá í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, telja að nefndin muni lækka vexti um 25 punkta.

Vaxtalækkunarferlið færist lengra inn í framtíðina

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vaxtalækkunarferlinu verði haldið áfram á seinni hluta ársins og það standi fram undir lok næsta árs.

„Í ljósi meiri seiglu í hagkerfinu og þrálátari verðbólgu en vænst var teljum við að vaxtalækkunarferlið færist heldur lengra inn í framtíðina en við spáðum áður, nú nema þá að tollastríð eða önnur efnahagsáföll kæli hagkerfi heims meira en útlitið er fyrir þessa dagana.“

Bankinn telur meiri líkur en minni á því að stýrivextir lækki á ný eftir þriggja mánaða sumarhlé Seðlabankans, þ.e. við vaxtaákvörðun nefndarinnar 20. ágúst.

Alls gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir því að stýrivextir lækki um 0,75 prósentur fram til áramóta og stýrivextir verði því 7,0% í árslok. Hún spáir því að stýrivextir lækki um að minnsta kosti 1,5 prósentur til viðbótar á árinu 2026 og að meginvextir Seðlabankans verði því á bilinu 5,0 – 5,5% þegar komið er fram á lokafjórðung þess árs.

„Hvort vextir lækka frekar eftir það veltur svo á því hvort tekst að tjóðra langtíma verðbólguvæntingar á ný í grennd við verðbólgumarkmiðið, sem og hinu hver staða hagsveiflunnar verður þegar þar er komið sögu.“