Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um að hún hefði ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,5% en þar áður hafði hún lækkað vexti í fimm skipti í röð. Tvær vaxtaákvarðanir eru eftir af árinu, annars vegar í október og hins vegar í nóvember.

Greining Íslandsbanka segist í nýrri grein á vef bankans gera ráð fyrir að vextir verði óbreyttir út þetta ár „og líklega fram á næsta ár nema efnahagshorfur versni til muna“.

Færist sífellt lengra inn í framtíðina

Í greininni er bent á nýja verðbólguspá Seðlabankans sem finna má í nýju riti Peningamála. Verðbólguspáin versnar talsvert frá fyrri spá Seðlabankans síðan í maí.

Seðlabankinn spáir nú að verðbólga verði að meðaltali 4,5% á fjórða ársfjórðungi 2025 og 3,6% á næsta ári, og 2,6% árið 2027. Greining Íslandsbanka segist svartsýnni en Seðlabankinn varðandi verðbólguhorfur til lengri tíma og gerir hún ekki ráð fyrir að verðbólga verði við markmið á spátímanum.

„Verðbólguspár Seðlabankans hafa dökknað talsvert frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í fyrrahaust. Á þeim tíma gerði Seðlabankinn ráð fyrir því að verðbólga í ár yrði 3,4% og 2,7% á næsta ári,“ segir í greininni sem Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í Greiningu Íslandsbanka, er skrifuð fyrir.

„Það að ná verðbólgu í markmið á ásættanlegum tíma færist því í sífellu lengra inn í framtíðina.“

Ný verðbólguspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum sem kom út í morgun.

Tónninn hefði mátt vera harðari

Greining Íslandsbanka segir ákvörðun peningastefnunefndar að halda vöxtum óbreyttum ekki hafa komið á óvart. Hins vegar hafi vakið athygli þeirra að yfirlýsing nefndarinnar hafi nánast verið óbreytt frá síðustu ákvörðun í maí þrátt fyrir talsvert verri verðbólguhorfur og meiri þrótt í hagkerfinu.

„Að okkar mati hefði tónninn og framsýna leiðsögnin mátt vera harðari, verðbólguhorfur hafa dökknað og verðbólga í markmið færist sífellt lengra inn í framtíðina. Ljóst er að með því að halda vöxtum óbreyttum í fyrsta sinn í eitt ár, hyggst nefndin staldra við og meta næstu skref.“