Fimmtán fyrirtæki hlutu í dag styrki frá 1,0 til 5,0 milljónum króna í árvissri úthlutun Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka. Heildarupphæð styrkjanna nam 40 milljónum króna. Sjóðnum barst umsóknir frá 90 verkefnum.
Frumkvöðlasjóðurinn er fjármagnaður með 0,1% mótframlagi Íslandsbanka af innstæðum Vaxtasprota sparnaðarreikninga á ársgrundvelli. Frá stofnun hefur sjóðurinn nú styrkt margvísleg verkefni um 165 milljónir króna.
„Gaman er að sjá þá miklu grósku sem til staðar er í íslensku frumkvöðlastarfi og endurspeglast í þeim fjölda umsókna sem við fáum á hverju ári um styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Verkefnin eru afar fjölbreytt en eiga sammerkt að vera afar spennandi, ríkur vilji í að bæta heiminn og taka þátt í framtíðarhagvexti íslensk samfélags. Afar ánægjulegt er að geta með þessum hætti stutt framgang íslensks hugvits,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.
Stjórn sjóðsins er óbreytt á milli ára, en hana skipa Ari Kristinn Jónsson, forstjóri AwareGO og fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, og Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.
Markmið Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og styðja við bakið á frumkvöðlaverkefnum sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur valið að leggja sérstaka áherslu á.
Verkefnin sem fengu styrki í ár:
BioBuilding er frumkvöðlaverkefni sem snýst um að þróa aðferðir við að nota innlent ræktaðan iðnaðarhamp og nýta hann sem byggingarefni aðlagað að íslensku loftslagi og aðstæðum og stuðla þannig að sjálfbærum og umhverfisvænum byggingariðnaði.
CoolWool ehf. framleiðir kælipakkningar án þess að í þeim sé nokkurt plast. Sérstaða CoolWool felst í einangrunareiginleikum pakkninganna sem framleiddar eru úr sellúlósakvoðu, meðal annars úr úrgangsgrasi og grænmeti, og í samræmi við framleiðsluferli hringrásarhagkerfisins.
Deed Delivery er neytendamiðaður samskiptavettvangur fyrir lokaskref pakkasendingar, frá vöruhúsi með sendli til viðskiptavinarins. Þróuð hefur verið leið til afhendingar hraðsendinga þar sem dregið er úr kostnaði og kolefnislosun með betri samskiptum og skilvirkari útkeyrslu.
Epoch er langt komið með þróun snjalltunnu sem flokkar ruslið sjálf með aðstoð háþróaðrar gervigreindartækni. Í tunnunni er greiningarklefi sem á tveimur sekúndum ákvarðar hvort um sé að ræða plast, pappír, flöskur eða dósir, eða almennt sorp.
Seeds of Change verkefni Fine Foods Íslandica gengur út á að rækta og framleiða matvæli úr þangi í samvinnu við strandbyggðir og leggja með því grunninn að nýjum iðnaði stuðlar að samdrætti útblásturs og hefur jákvæð umhverfisáhrif.
Hraðið – miðstöð nýsköpunar er frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir sem starfa við skapandi verkefni á Húsavík. Ætlunin er að efla svæðisundið nýsköpunarstarf í klasa þar sem meðal annars er að finna fjölda fundarrýma og fullbúna FabLab-smiðju.
Hreinar sápur: Soffía Gísladóttir myndlistarmaður, og margmiðlunar- og textahönnuður, þróar heilsusamlega og samkeppnishæfa fljótandi sápu úr innlendri nautatólg frá bændum í Kjós. Um er að ræða innlenda náttúruvöru sem komið getur í stað innfluttrar fljótandi sápu með fjölda innihaldsefna.
Lilja er smáforrit fyrir þolendur ofbeldis sem bætir stöðu þeirra og tryggir utanumhald gagna og samskipti við lögreglu. Appið er fyrir síma og heldur utan um líðan, hljóðskrár og myndir notenda. Gögn fara beint úr símanum í dulkóðaða gagnageymslu hjá 112 án þess að vistast í tækinu sjálfu.
María Eymundsdóttir: Stefnt er að yfirfærslu þekkingar frá Alaska á ræktun og vinnslu burnirótar og að stofnun samvinnufélags ræktenda. Nokkurra ára tilraunaræktun á burnirót sýnir að hægt er að rækta hana hér sem nytjajurt, en hún er meðal annars notuð í snyrtivörur og til jurtalyfjaframleiðslu.
Melta er hringrásarlausn fyrir lífrænan heimilisúrgang sveitarfélaga á landsbyggðinni og framleiðsla á lífrænum áburði. Um er að ræða nýja nálgun í úrgangsmálum sem spannar ferlið frá flokkun á heimilum, söfnun úrgangsins, gerjun í loftfirrtum aðstæðum og að framleiðslu lífræns áburðar.
On to Something, rafrænum uppboðsmarkaði, er ætlað að auðvelda rekstraraðilum að skrá afgangs- og hliðarafurðir sínar og finna þeim betri farveg, spara og/eða auka tekjur, fækka kolefnissporum og nýta gögnin við umhverfisuppgjör. Með þessu eykst yfirsýn og nýir möguleikar kunna að koma í ljós.
Sara – stelpa með ADHD er barnabók um stelpu með ADHD sem getur verið stúlkum fyrirmynd þó að hún takist á við ýmsar áskoranir í daglegu lífi sínu. Um leið er athygli barna og þeirra sem næst þeim standa vakin á mismunandi birtingarmyndum ADHD í stelpum og strákum.
Snið.Mót er verkefni Valdísar Steinarsdóttur og snýr að þróun á nýrri aðferð við framleiðslu á fatnaði. Í stað þess að klippa fataefni eftir sniði og sauma er fljótandi gelatín-efni hellt í form þar sem það verður að lífrænu og sveigjanlegu plastlíki. Fatnaður sem ekki er mældur í metrum heldur millilítrum.
So Green brúar bilið milli fyrirtækja sem vilja lækka kolefnisspor sitt með kaupum á vottuðum kolefniseiningum og hjálparsamtaka í leit að fjármagni til verkefna sem tryggja menntun stúlkna. Reiknaður er út loftslagsávinningur verkefnanna og kolefniseiningar seldar.
Vsolve ehf. vinnur að fullþróun hugbúnaðarlausnarinnar Flytjum – snjöll flutningsmiðlun, miðlægu markaðssvæði fyrir flutninga sem miðar að því að nútímavæða íslenskan flutningageira, einfalda verkferla, örva samkeppni og draga úr umhverfisáhrifum.