Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 4,4% í dag stóð í 119 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Það er 11,7% hærra en 106,56 krónur útboðsgengið í útboði á eftirstandandi hlut ríkisins í bankanum í síðustu viku.

Gengi bankans hækkaði talsvert í síðustu viðskiptum rétt fyrir lokun markaða. Viðskipti með 1,86% hlut í Íslandsbanka á genginu 119 krónur, eða samtals fyrir tæplega 4,2 milljarða króna fóru í gegn kl. 15:29.

Velta með hlutabréf Íslandsbanka nam 10 milljörðum króna. Til samanburðar var heildarvelta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag um 13,5 milljarðar. Inni í veltutölum Íslandsbanka er úthlutun í tilboðsbók B að fjárhæð 3,7 milljarðar króna.

Stór hópur einstaklinga sem tóku þátt í tilboðsbók A í útboðinu fengu afhenta hluti í Íslandsbanka í dag. Gera má ráð fyrir að hluti af þeim 31 þúsund einstaklingum sem tóku þátt í A bókinni hafi selt bréf í bankanum í dag.

Á eftir Íslandsbanka var mesta veltan með bréf Kviku banka, eða um 809 milljónir króna, og Arion banka eða um 710 milljónir króna.

Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi greiningarfyrirtækisins Akkurs, sagði í viðtali við RÚV í dag að stórir fjárfestar sem fengu ekkert úthlutað í téðu útboði hafi verið að kaupa bréf í Arion og Kviku á undanförnum dögum, og jafnvel Íslandsbanka.

Amaroq upp um 11%

Málmleitarfélagið Amaroq Minerals hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar í dag eða um 11,2% í 218 milljóna króna veltu. Gengi Amaroq stóð í 153 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag voru við­skipti með bréf félagsins stöðvuð síð­degis eftir miklar og skyndi­legar sveiflur í verði. Áður en viðskiptin voru stöðvuð hafði hlutabréfaverð Amaroq nær tvöfaldast á nokkrum mínútum, úr 1,47 dölum í 2,90 dali.

Um var að ræða hæsta skráða verð í sögu félagsins og jafn­gildir sú hækkun 97% aukningu frá loka­verði dagsins áður.